Enn bjartsýnn á bóluefni á nýju ári

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að búast hafi mátt …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að búast hafi mátt við bakslagi við þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni. mbl.is/​Hari

„Þótt þetta sé ekki gleðiefni þarf þetta ekki að koma stórkostlega á óvart. Ég man ekki eftir einu einasta tilfelli við þróun á bóluefni þar sem ekki hefur komið bakslag. Við þá vinnu eru menn að sækja sér nýja þekkingu og til þess þarf að fálma í rökkrinu. Þetta er flókið mál,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Í gærkvöldi var greint frá því að fyr­ir­tækið AstraZeneca hefði stöðvað þróun bólu­efn­is við kór­ónu­veirunni eft­ir að einn þátt­tak­andi í rann­sókn þess veikt­ist skyndi­lega. Bólu­efnið var á loka­stig­um próf­ana og ráðgert hafði verið að Ísland fengi bólu­efni frá AstraZeneca ef markaðsleyfi fengist. 

Kári segir í samtali við mbl.is að vísindamenn AstraZeneca hafi verið búnir að bólusetja stóran hóp manna. Einn þeirra hafi orðið fyrir alvarlegu fyrirbrigði sem að öllum líkindum sé aukaverkun af bóluefninu. „Nú setjast menn niður og reyna að skilja hvað gerst hefur. Ef þetta reynist vera vegna bóluefnisins þá eru þeir komnir aftur á byrjunarreit,“ segir Kári, sem minnir á að níu önnur fyrirtæki séu að vinna að þróun bóluefnis við kórónuveirunni.

Hann segir að erfitt sé að búa til lyf og bóluefni enda sé með því verið að fikta í líkama mannsins. Við þá vinnu verði að finna rétt jafnvægi milli þess að finna nógu sterkt ónæmissvar gegn sjúkdómnum án þess að það beinist gegn líkama mannsins. 

„Ég er enn þá mjög bjartsýnn á að það verði komið bóluefni á markað í byrjun næsta árs,“ segir Kári um framhaldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina