Keyrði í þrígang á mann á göngugötu

Stór hluti Laugavegar er skilgreindur sem göngugata.
Stór hluti Laugavegar er skilgreindur sem göngugata. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Elías Þórsson lenti í því leiðindaatviki í dag að ökumaður stórrar pallbifreiðar ók á hann þar sem hann stóð á miðri göngugötu. Ökumaðurinn veittist að Elíasi þegar ökumanninum var tjáð að hann keyrði í leyfisleysi á göngugötu.

Atvikið átti sér stað á Laugavegi í miðbæ Reykjavíkur síðdegis í dag, nánar tiltekið á þeim hluta Laugavegar sem skilgreindur er sem göngugata. Elías segir ökumanninn hafa keyrt á sig í þrígang áður en hann steig út úr bílnum og reif í Elías og fleygði honum til.

„Ýtir við mér með bílnum“

„Ég er að labba heim til mín af Kaffibrennslunni sem er steinsnar frá húsinu mínu þegar, fyrirvaralaust, þessi ökumaður kemur og ýtir í mig með bíl sínum,“ segir Elías við mbl.is. „Ég sný mér við og spyr hann hvað hann sé eiginlega að gera, hann sé hérna á bíl sínum á miðri göngugötu, og á móti umferð í þokkabót. Þá ýtir hann svona aftur í mig með bílnum þannig að ég ýtist eftir götunni svona kannski tvo metra.

Þá stígur hann út úr bílnum, rífur í mig og fleygir mér til. Ég tjáði manninum bara þá að ég ætlaði að hringja á lögregluna, sem ég og gerði.“

Lögregla kom á svæðið og tók af mönnunum skýrslu. Elías segir að á meðan það gerðist hafi annar bíll komið og keyrt niður göngugötuna í leyfisleysi. Var lögregla þá á staðnum og aðhafðist ekkert. Elíasi var síðan boðið að kæra málið en sagðist ekki nenna að standa í því.

Elías ekki sá eini

Elías segist orðinn langþreyttur á ágangi bíla á göngugötunni á Laugavegi, sem ekki hafi leyfi til að vera þar. Hann sé alls ekki sá eini sem lendi í atvikum sem þessum. Í facebookhópi Samtaka um bíllausan lífsstíl má sjá fleiri frásagnir fólks sem hafa lent í svipuðum aðstæðum. 

„Ef Reykjavíkurborg ætlar að hafa þessa göngugötu þarna, af hverju er þá ekki hægt að gera það almennilega? Hérna keyra í gegn tugir ef ekki hundruð bíla á dag og það bara stemmir ekki við þann fjölda bíla sem raunverulega má keyra hérna,“ segir Elías.

Einungis er leyfilegt fyrir ökumenn sem hafa svokallað P-merki að keyra á göngugötum og þá sem sinna vöruflutningum fyrir verslanir við göngugötuna. Það er þó aðeins á tilskildum tíma dags.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert