Kominn með þrjá umbjóðendur til viðbótar

Sævar Þór Jónsson lögmaður.
Sævar Þór Jónsson lögmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sæv­ar Þór Jóns­son, lögmaður konu sem fékk ranga niður­stöðu úr leg­háls­sýna­töku árið 2018 og greind­ist með ólækn­andi krabba­mein í vor, segir fjölda fyrirspurna hafa borist eftir að málið komst í hámæli.

„Ég fæ daglega fyrirspurnir,“ segir Sævar í samtali við mbl.is. Spurður hvort hann hafi tölu á fyrirspurnunum svarar hann því til að þær séu að minnsta kosti fleiri en tuttugu.

„Það eru þá einstaklingar að spyrja fyrir aðstandendur sem eru látnir, og einstaklingar sem eru veikir og telja að það geti tengst þessu máli, en það er ekkert sem ég get staðfest að svo stöddu þar sem ég hef ekki fengið gögn í öllum málunum.“

Tíma taki að funda með aðilunum sem til hans leiti og að finna þau gögn sem þarf til að meta stöðu þeirra.

Mun senda kvörtun til landlæknis

Aðspurður upplýsir Sævar að hann sé nú með þrjá umbjóðendur til viðbótar við þann fyrsta.

„Og í að minnsta kosti einu þeirra tilvika þá ætla ég að senda kvörtun til landlæknis,“ segir hann, en getur aðspurður ekki greint nánar frá þessum málum að svo stöddu.

„Það er alla vega grundvöllur til að fara með þetta mál til landlæknis og láta landlækni kanna það til hlítar.“

Spurður hvort honum finnist Krabbameinsfélagið hafa svarað þessu öllu með réttum hætti, segir Sævar:

„Það sem kemur mér á óvart er það, að í ljós kemur að félagið hefur ekki tilkynnt til síns tryggingafélags um þetta atvik þar sem það hefur sjálft viðurkennt að mistök hafi verið gerð.“

Báðust afsökunar eftir fyrirspurn lögmanns

„Af samskiptum okkar að dæma, við tryggingafélag Krabbameinsfélagsins, þá vita þau ekkert um málið nema það sem kemur fram í fjölmiðlum,“ segir hann og bætir við:

„Ég velti því fyrir mér – ég ætla ekki að fullyrða það – en ég velti því fyrir mér hvort menn hafi virkilega haldið að þetta mál myndi daga uppi með afsökunarbeiðni til umbjóðanda míns.“

Sú afsökunarbeiðni hafi þá ekki borist fyrr en eftir að umbjóðandinn leitaði til Sævars, og hann sendi félaginu fyrirspurn um málið.

„Þá höfðu forsvarsmenn Krabbameinsfélagsins samband við umbjóðanda minn og báðust afsökunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert