Lýsa yfir óvissustigi fjarskiptageirans á Íslandi

DDoS er sérstök tegund netárása þar sem mikilli netumferð er …
DDoS er sérstök tegund netárása þar sem mikilli netumferð er beint inn á netlæga innviði fyrirtækis til að skerða afkastagetu. AFP

Netöryggissveit Íslands, CERT-IS, hefur lýst yfir óvissustigi fjarskiptageirans á Íslandi í fyrsta sinn. Ástæðan er sú að íslenskt fyrirtæki varð nýverið fyrir svokallaðri DDoS-álagsárás sem fylgt var eftir með fjárkúgunarpósti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póst- og fjarskiptastofnun.

DDoS er sérstök tegund netárása þar sem mikilli netumferð er beint inn á netlæga innviði fyrirtækis til að skerða afkastagetu. Umferðin er það mikil að netbúnaður hefur ekki undan að svara henni og rofnar þjónusta til notenda. Í tilkynningu frá PFS segir að slíkum árásum sé jafnan fylgt eftir með fjárkúgun þar sem stærri árás er hótað ef tiltekin upphæð er ekki greidd.

Hótanir sem slíkar eru ekki nýjar af nálinni, en CERT-IS hefur haft aðkomu að nokkrum slíkum málum undanfarin ár. Þær hafi þó jafnan reynst innantómar. Segir í tilkynningunni að vísbendingar, til að mynda frá erlendum samstarfsaðilum CERT-IS, gefi til kynna að hópurinn sem stendur að baki þessari árás búi yfir getu til að gera árásir af þeirri stærðargráðu sem hótað sé.

Því hefur óvissustig fjarskiptageirans verið virkjað og mun CERT-IS vera í reglulegu sambandi við helstu fjarskipta- og hýsingarfyrirtæki landsins til að miðla upplýsingum sem tengjast árásunum. 

CERT-IS beinir þeim tilmælum til fyrirtækja og stofnana að tilkynna strax um hótanir á netfangið cert@cert.is. Ekki er mælt með því að greitt sé lausnargjald sé þess krafist.

CERT-IS er netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar.
CERT-IS er netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar.
mbl.is
Loka