Samherji og Seðlabankinn takast á í dómsal

Þorsteinn Már Baldvinsson mætir í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í …
Þorsteinn Már Baldvinsson mætir í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðalmeðferð í skaðabótamáli útgerðarfélagsins Samherja gegn Seðlabanka Íslands hefst í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 9 í dag. 

Um er að ræða tvö skaðabótamál gegn Seðlabankanum, annars vegar í máli Samherja gegn bankanum og hins vegar í máli Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, þar sem krafist er bóta fyrir fjárhagstjón og bættan kostnað fyrir málarekstur SÍ gegn Samherja og Þorsteini. Einnig er miskabóta krafist í báðum málunum. 

Greint var frá því í ágúst á síðasta ári að Þorsteinn hafði stefnt Seðlabankanum fyrir „algerlega tilefnislausar aðgerðir gegn Þorsteini Má perónulega“. 

Í stefnunni sem gefin var út á síðasta ári segir að ekki leiki vafi á því að margra ára rannsóknaraðgerðir stefnda Seðlabankans sem og stjórnvaldssekt og opinber umræða um hana hafi laskað orðspor Þorsteins og því eigi hann rétt á miskabótum af þeim sökum. Skaðabótakrafan byggist á lögmannskostnaði í tengslum við sekt Seðlabankans sem síðar var hnekkt. Um er að ræða fimm milljóna skaðabótakröfu og 1,5 milljóna kröfu í miskabætur. 

Seðlabanki Íslands og Samherji takast á í Héraðsdómi Reykjavíkur í …
Seðlabanki Íslands og Samherji takast á í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Samsett mynd

Þá var greint frá því í október síðasta árs að Samherji hefði krafist 306 milljóna króna í skaðabætur og tíu milljóna króna í miskabætur frá Seðlabankanum vegna rannsóknar bankans á meintum brotum fyrirtækisins á reglum um gjaldeyrismál. Um 250 milljónir króna eru vegna kostnaðar við þjónustu lögfræðinga. 

mbl.is