Andlát: Soffía Kristín Karlsdóttir

Soffía Kristín Karlsdóttir, leikkona og söngkona, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 5. september síðastliðinn, 92 ára að aldri.

Soffía fæddist 26. ágúst 1928 í Reykjavík og ólst upp á Skagaströnd og Akranesi. Foreldrar hennar voru Kristín Guðmundsdóttir frá Þingeyri við Dýrafjörð og Karl O.J. Björnsson, bakarameistari í Reykjavík og Vestmannaeyjum. Fósturfaðir Soffíu var Björn Bergmann Jónsson matsveinn.

Þegar Soffía var 10 ára flutti fjölskyldan frá Skagaströnd á Akranes. Að loknu gagnfræðaprófi flutti Soffía til Reykjavíkur og innritaðist í Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og lauk þar þriggja ára leiklistarnámi.

Hún tók þátt í revíunni Allt er fertugum fært eftir Theodór Einarsson, sem sett var á svið á Akranesi 1945, þá 17 ára. Árið 1948 lék hún í Eftirlitsmanninum eftir Gogol hjá Leikfélagi Reykjavíkur og árið 1949 gerði hún ráðningarsamning við Bláu stjörnuna sem starfaði um árabil í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll og tók þátt í átta revíusýningum á þremur árum. Þá tók hún upp samstarf við Íslenska tóna, sem stóðu fyrir revíukabarettum. Fjöldi laga frá þessum tíma var hljóðritaður og útgefinn eins og Bílavísur og Réttarsamba, en flutningur hennar á laginu Það er draumur að vera með dáta úr revíunni Hver maður sinn skammt, útgefið af Íslenskum tónum 1954, skaut henni á stjörnuhimininn og varð eitt frægasta lag gullaldar revíunnar og er enn flutt í útvarpi.

Soffía settist að í Keflavík og þar varð hún strax virk í félagsstarfi og endurvakti ásamt áhugaleikurum Leikfélag Keflavíkur, formaður um árabil og stóð fyrir leiksýningum í Ungó og Stapanum og Félagsbíói.

Soffía var formaður Kvenfélags Keflavíkur til fjölda ára. Hún var formaður Sjálfstæðiskvennafélags Keflavíkur um hríð og einnig virk í félagi Lionessa og Soroptomista.

Eftirlifandi eiginmaður Soffíu er Jón Halldór Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri. Þau eignuðust 10 börn og eru afkomendur orðnir 82 talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert