Fasteignir rifnar út og seljast á yfirverði

mbl.is/Sigurður Bogi

Um 56% fleiri nýjar íbúðir hafa verið teknar úr sölu á síðustu þremur mánuðum miðað við sama tíma í fyrra en fjölgunin nemur aðeins um 18% á meðal annarra íbúða.  Meðalsölutími hefur styst og 29% íbúða eru seldar á eða yfir ásettu verði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

„Áfram virðist vera mikið um fasteignaviðskipti miðað við skammtímavísa HMS. Ágúst var þriðji mánuðurinn í röð þar sem fjöldi íbúða teknar úr birtingu var mjög hár í sögulegu samhengi en eins og fjallað hefur verið um í síðustu tveimur mánaðarskýrslum þá hefur sögulega verið mikil fylgni milli þess hve margar íbúðir eru teknar úr sölu og fjölda útgefinna samninga. Hins vegar fást ekki gögn fyrir útgefna samninga fyrr en þeim hefur verið þinglýst. Á síðustu þremur mánuðum hefur um 24% fleiri íbúðir verið teknar úr sölu samanborið við sömu mánuði í fyrra.

Um 56% fleiri nýjar íbúðir hafa verið teknar úr sölu á síðustu þremur mánuðum miðað við sama tíma í fyrra en fjölgunin nemur aðeins um 18% á meðal annarra. íbúða. Þá hefur fjölgunin verið meiri á meðal íbúða í fjölbýli en í sérbýli eða um 25% í stað 14%,“ segir í skýrslunni.

Mun færri íbúðir á söluskrá

Fleiri íbúðir hafa verið teknar úr sölu á undanförnum mánuðum en hafa verið settar á sölu. Fyrir vikið hefur dregið nokkuð úr fjölda íbúða sem eru auglýstar til sölu. Fjöldi auglýstra íbúða í fjölbýli byrjaði að dragast saman nokkuð skarpt undir lok júní mánaðar og hefur nú dregist saman um rúmlega 18%. Fjöldi auglýstra íbúða í fjölbýli hefur einnig dregist saman um 18% á sama tíma en þar hófst samdrátturinn strax í apríl. Auglýstum íbúðum til sölu hefur fækkað mest á höfuðborgarsvæðinu eða um 28% á meðal nýrra íbúða og um 22% á meðal eldri íbúða. Hér er því um töluverða breytingu að ræða á fjölda íbúða til sölu á aðeins rúmlega tveimur mánuðum.

Sölutími helmingast á nokkrum mánuðum

„Meðalsölutími hefur farið minnkandi undanfarna mánuði, sérstaklega meðal íbúða í nýbýli en í fyrsta sinn síðan í byrjun árs 2013 var meðalsölutíminn lægri fyrir nýbýli en aðrar íbúðir. Á höfuðborgarsvæðinu var meðalsölutími nýbýlis um 37 dagar en var um 78 dagar í mars. Hann hefur því helmingast síðan þá. Það tók að jafnaði 46 daga að selja aðrar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu en hann hefur farið lækkandi frá því í byrjun árs þegar hann var um 59 dagar. Annars staðar á landinu tók að jafnaði um 70 daga að selja íbúðir í nýbýli og um 73 daga að selja aðrar íbúðir og hefur hann ekki verið styttri frá upphafi mælinga. Á höfuðborgarsvæðinu tók að jafnaði 43 daga að selja fjölbýli og 50 daga að selja sérbýli sem er í báðum tilfellum lægra en hefur mælst frá því að mælingar hófust í byrjun árs 2013,“ segir í skýrslunni.

Um 12% íbúða á höfuðborgarsvæðinu með kaupsamning útgefinn í júlí voru seldar yfir ásettu verði og nær 29% á eða yfir ásettu verði. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins voru 6,6% íbúða seldar yfir ásettu verði og annars staðar á landinu var hlutfallið um 9,8%.

Meiri sveiflur í verði sérbýla

Íbúðaverð hefur tekið að hækka hraðar á undanförnum mánuðum miðað við vísitölu paraðra viðskipta. Samkvæmt henni mældist 12 mánaða hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 7,4% í júlí samanborið við 4,5% í júní. Árhækkunin mælist minnst í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins eða 4,4% en annars staðar á landsbyggðinni mælist árshækkunin heil 9,1% í júlí miðað við 2,9% í júní.

Hækkanir á fasteignaverði virðast aðallega vera drifnar áfram af sérbýli en það hefur hækkað um 11% á undanförnum 12 mánuðum í samanburði við 3,9% hækkanir á fjölbýli. Þess má þó geta að það eru jafnan meiri sveiflur í verðþróun sérbýla en fjölbýla segir ennfremur í skýrslunni. Þar er tekið fram að hækkun húsnæðisverðs er þó hógværari þegar ekki er horft á paraðan samanburð en það gæti bent til þess að nýjar íbúðir séu að hækka minna í verði en aðrar. 

Mánaðarskýrsla HMS í heild

mbl.is