Kirkjuþing álykti um brottvísanir

Tillaga Sólveigar felst í því að Kirkjuþing 2020, sem nú …
Tillaga Sólveigar felst í því að Kirkjuþing 2020, sem nú stendur yfir, hvetji íslensk stjórnvöld til að hætta að vísa umsækjendum um alþjóðlega vernd án efnislegrar meðferðar hælisumsóknar þótt þau hafi hlotið hana á Ítalíu, í Grikklandi eða Ungverjalandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Mér finnst þetta svo ómannúðlegt að nýta þessa Dyflinnarreglugerð, vegna þess að fólk sem er búið að fá alþjóðlega vernd í einhverju af þeim löndum sem það kemur fyrst til er ekki að fara frá þeim að gamni sínu,“ segir Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, sem lagt hefur fram þingsályktunartillögu um brottvísanir á Kirkjuþingi.

„Það er vegna þess að það eru óviðunandi aðstæður í þessum löndum sem það hefur fengið alþjóðlega vernd í. Þess vegna eru þau að leggja þetta á sig að koma alla leið til Íslands.“

Sólveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum.
Sólveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tillaga Solveigar felst í því að Kirkjuþing 2020, sem nú stendur yfir, hvetji íslensk stjórnvöld til að hætta að vísa umsækjendum um alþjóðlega vernd án efnislegrar meðferðar hælisumsóknar þótt þau hafi hlotið hana á Ítalíu, í Grikklandi eða Ungverjalandi, þar sem yfirvöld virðist ekki þess umkomin að skapa þessu fólki mannsæmandi aðstæður og möguleika á að byggja sjálfum sér og börnum sínum örugga framtíð.

Séu enn á flótta

„Móttaka flóttafólks á að fela í sér aðstoð varðandi húsnæði, menntun, heilsugæslu, atvinnu og svo framvegis, þ.e. að aðstoða manneskju til að lifa mannsæmandi lífi. Flóttamaður sem hefur fengið landvistarleyfi en er án húsnæðis, atvinnu og aðgengis að heilsugæslu er enn á flótta í raun og veru,“ segir í greinargerð með tillögu Solveigar.

Solveig segist verða fyrir miklum vonbrigðum ef kirkjuþingsfulltrúar tækju ekki vel undir tillögu hennar. „Kirkjan hefur verið að vinna alveg gríðarlega mikið starf meðal hælisleitenda. Við stundum mikla sálgæslu meðal þessa fólks og það er alveg rosalegt að hlusta á það sem þau hafa lent í. Þau bera þá von í brjósti um að vera komin í land þar sem er miskunn og kærleikur og friður, að þau þurfi að halda áfram að upplifa svona mikinn kvíða og óvissu er ekki boðlegt í okkar samfélagi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina