Auglýst eftir umsóknum í stöðu Víðis

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Ljósmynd/Lögreglan

Auglýst var í morgun, á starfatorgi Stjórnarráðsins, að lausar væru til umsóknar fjórar stöður innan embættis ríkislögreglustjóra. Þar á meðal er staða yfirlögregluþjóns almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, en það er sú staða sem Víðir Reynisson var ráðinn til að gegna í upphafi kórónuveirufaraldursins. Víðir var ráðinn tímabundið og er því staðan laus frá og með 1. nóvember.

„Þetta er bara hluti af endurskipulagningu í skipuriti embættisins,“ segir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri Almannavarna, í samtali við mbl.is. Nýtt skipurit embættis ríkislögreglustjóra verður birt síðar í dag en fjórar stöður hjá embættinu eru lausar. Þrjár stöður yfirlögregluþjóns hjá embættinu og ein staða sviðsstjóra.

Ráðinn tímabundið

Athygli vekur að staða yfirlögregluþjóns almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra er sögð laus en það einmitt sú staða sem Víðir Reynisson hefur gegnt síðan í upphafi kórónuveirufaraldursins.

„Já, það er alveg rétt, þetta er staðan sem Víðir var ráðinn til að gegna tímabundið. Þetta stöðugildi var bara sett tímabundið til að mæta áskorunum kórónuveirufaraldursins. Þetta stöðugildi var ekki til áður en svo hefur nú verið ákveðið að halda því eitthvað lengur,“ segir Jóhann.

Nýr Víðir í nóvember?

Spurður að því hvort Víðir hafi sjálfur sótt um stöðuna segir Jóhann að hann hafi ekki rætt það við hann en Víðir er í veikindaleyfi fram yfir helgi. Ekki náðist í Víði við gerð fréttarinnar.

Getur þá verið að það verði kominn nýr Víðir í nóvember?

„Ég skal ekki segja, staðan var bara auglýst í morgun þannig umsóknarferlið er svo að segja bara nýhafið. Víðir verður bara að svara því sjálfur hvort hann ætli að sækja um eða ekki.“

Að auki voru auglýstar stöður yfirlögregluþjóns landamærasviðs ríkislögreglustjóra, yfirlögregluþjóns alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra og sviðsstjóra þjónustusviðs ríkislögreglustjóra. Umsóknarfrestur er til 28. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert