Rannsókn brunans lokið

Þrír létust í brunanum á Bræðraborgarstíg.
Þrír létust í brunanum á Bræðraborgarstíg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsókn lögreglu á tildrögum brunans við Bræðraborgarstíg í júní síðastliðnum er lokið og er málið því komið á borð héraðssaksóknara. Grunur er um að karlmaður á sjötugsaldri, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi síðan bruninn varð, hafi brotið gegn 211. grein almennra hegningarlaga en hún kveður á um manndráp af ásetningi.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfesti það við RÚV í dag að málið væri komið á borð embættisins. Hún sagði að málið væri nú til skoðunar. 

Fram kom í úrskurði héraðsdóms þegar varðhald yfir hinum grunaða var framlengt í fyrsta sinn að maðurinn væri grunaður um að hafa brotið gegn 211. grein almennra hegningarlaga. Hann er því grunaður um manndráp af ásetningi en refsing við slíku sé fangelsisvist allt að ævilangt og eigi skemur en fimm ár. 

Þrír létust í brunanum á Bræðraborgarstíg og vakti málið mikla reiði meðal margra sem kröfðust úrbóta í málefnum erlends verkafólks á Íslandi. Öll þau sem létust í brunanum voru pólskir ríkisborgarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert