„Gat“ upp á 4.000 íbúðir

Keldnaland.
Keldnaland. Gervihnattamynd/Google

Sjálfstæðisflokkurinn hyggst leggja fram tillögu á borgarstjórnarfundi á þriðjudag um að breyting verði gerð á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem heimilar íbúabyggð á Keldum og í Örfirisey.

Samhliða því verði ráðist í skipulagningu atvinnulóða á Keldum. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks, segir í samtali í Morgunblaðinu í dag að málið sé mikilvægt fyrir hagsmuni almennings.

Í greinargerð Sjálfstæðisflokks segir að meirihlutinn í borgarstjórn gangi út frá því að hægt sé að koma íbúabyggð sem nemi 4.000 íbúðum á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni. Að mati Sjálfstæðisflokks liggi þó fyrir að ekkert verði byggt í Vatnsmýrinni á næstu 10 til 20 árum enda hafi ekki verið ákveðið hvar annað flugvallarstæði yrði staðsett. Enn fremur sé útlit fyrir að vegna efnahagslægðar í kjölfar heimfaraldursins muni tæplega verða ráðist í framkvæmdir við lagningu nýs flugvallar, framkvæmd sem oddviti Sjálfstæðisflokks segir að muni kosta um 100 milljarða. Að þessu gefnu sé ljóst að gat upp á 4.000 íbúðir sé í húsnæðisáætlun borgarinnar en hún gerir ráð fyrir því að um 1.000 íbúðir verði byggðar á ári til ársins 2040.

Eyþór segir að við þessum bráða húsnæðisskorti megi bregðast með uppbyggingu íbúabyggðar í Örfirisey og á Keldum. Á báðum stöðum sé pláss fyrir rúmlega 2.000 íbúðir. Í Örfirisey verði fyrirhuguð byggð sem muni hafa jákvæð áhrif á umferð innan borgarinnar sökum nálægðar hennar við verslun og þjónustu. Eins og stendur er ekki leyfi til uppbyggingar íbúabyggðar á svæðinu vegna nálægðar við birgðastöð olíufélaganna. Samþykkt var á fundi borgarráðs árið 2019 að umfang hennar yrði minnkað um helming fyrir árið 2025.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert