Horfna húsið var hluti af heillegri byggð á svæðinu

Árið 1968 var innréttað verslunarhúsnæði á neðri hæð hússins, sem …
Árið 1968 var innréttað verslunarhúsnæði á neðri hæð hússins, sem hafði þá um tíma verið notuð undir skrifstofur. Um leið var gluggum á framhlið hæðarinnar breytt í stóra verslunarglugga og inngangur settur á þá hlið. Síðan var opnuð þarna Búsáhaldaverslun Þorsteins Bergmann. Þá var bílskúrinn austan við húsið rifinn. Búsáhaldaverslunin var rekin fram til ársins 2017. Síðan þá hefur húsið staðið autt. Ljósmynd/Google.

Húsið Skólavörðustígur 36, sem rifið var í óleyfi á miðvikudaginn, var friðað vegna hverfisverndar. Það var talið hafa menningarsögulegt gildi sem hluti af heillegri byggð húsa frá 3. áratugi 20. aldar á Skólavörðuholti. Þetta kemur fram í húsakönnun fyrir svæðið, sem unnin var af Minjasafni Reykjavíkur 2009.

Í skipulagsreglugerð sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið setti árið 2013 segir um hverfisvernd: „Ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um vernd á sérkennum eldri byggðar, annarra menningarsögulegra minja eða náttúruminja.“

Í húsakönnun Minjasafnsins segir að húsið Skólavörðustígur 36 hafi verið byggt árið 1922 eftir teikningu Guðmundar H. Þorlákssonar byggingameistara. Öll hús og mannvirki sem eru 100 ára eða eldri eru friðuð samkvæmt lögum um menningarminjar og því voru aðeins tvö ár í að Skólavörðustígur 36 nyti slíkrar varanlegrar friðunar.

Bæta átti við hæð

Í fyrstu fékkst leyfi fyrir einlyftu húsi, en á meðan það var enn í byggingu var samþykkt að byggja mætti ofan á það aðra hæð. Húsið Skólavörðustígur 36 hefur því frá upphafi verið tvílyft með risi.

Í fyrstu brunavirðingu er húsið sagt byggt úr hlöðnum steinlímdum kalksteini, sem er afar óvenjulegt byggingarefni á þessum tíma, segir í húsakönnuninni. Í seinni virðingu er húsið hins vegar sagt byggt úr hlöðnum holsteini, 12 x 9 tommu þykkum, og er líklegra talið að þar sé um rétt byggingarefni að ræða. Inn- og uppgönguskúr hefur frá upphafi verið við vesturgafl hússins. Á hvorri hæð hússins var upphaflega ein íbúð. Um leið og húsið var byggt var reistur lítill geymsluskúr úr steinsteypu í suðvesturhorni lóðarinnar. Árið 1928 var búið að byggja nýjan og stærri geymslu- og þvottaskúr úr steinsteypu í suðausturhorni lóðarinnar. Árið 1942 var þessi skúr lengdur til norðvesturs og um leið byggður bílskúr úr timbri framan við hann, meðfram austurlóðamörkum. Húsið virðist hafa staðið óbreytt fram til ársins 1968, að öðru leyti en því að smárúðurammar í efri hluta glugganna voru fjarlægðir.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »