Lífið er ævintýralegt ferðalag

„Ég vil að það sé dáðst að mér fyrir hvernig …
„Ég vil að það sé dáðst að mér fyrir hvernig ég sinni börnum og fjölskyldu; ekki bara vinnunni minni. Það geta margir leyst mig af í vinnunni en það á enginn að leysa mig af í móðurhlutverkinu,“ segir Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, aðstoðardagskrárstjóri hjá RÚV. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Vestast í Vesturbænum, í fallegu hvítu steinhúsi, býr sjónvarpskonan Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir ásamt manni sínum Hauki Inga Guðnasyni og fjórum börnum á aldrinum eins til tíu ára. Ragnhildur býður upp á dásemdarkaffi við borðstofuborðið en húsið er afar smekklega innréttað og allt er á sínum stað. Blaðamaður undrar sig á því hvernig hægt sé að halda heimilinu svona hreinu og fínu með öll þessi börn. Það virðist ekki vera mikið mál, enda viðurkennir Ragnhildur að hún þoli ekki drasl. Það kemur svo í ljós þegar líður á viðtalið að Ragnhildi er mikið í mun að gera allt vel sem hún tekur sér fyrir hendur; hvort sem það tengist vinnu hjá RÚV, leik í bíómyndum, að skrifa bók eða því sem henni finnst mikilvægast; uppeldi á börnum sínum. Hún gefur sig alla í verkin, stóru og smáu.

Tveir drengir bættust í hópinn

Það var í mars á síðasta ári sem fjölskyldan stækkaði heldur betur þegar tvíburadrengir bættust í hópinn. „Þótt oft hafi nú verið líf og fjör á heimliinu þá má segja að frá þessum tíma höfum við ekkert verið í vandræðum með dauða tímann,“ segir Ragnhildur sem hefur nýlega hafið aftur störf hjá RÚV eftir fæðingarorlof.

„Fyrsta árið í lífi tvíburaforeldra er skiljanlega strembið. Lítill svefn og að nægu að huga. Þetta hefur þó gengið framar vonum en það hefur verið mikil áskorun að samþætta vinnu og fjölskyldulífið eftir orlof. Eins og flestir foreldrar vita getur reynst þrautinni þyngra að fá dagvistun að loknu orlofi. Hér í Vesturbænum eru allir leikskólar fullir og biðlistinn langur hjá dagmömmum. Í níu mánuði höfum við, eins og margir aðrir, þurft að stilla upp vaktaplani á sunnudagskvöldum til að redda pössun fyrir vikuna,“ segir Ragnhildur, sem segir drengina nú loks hafa fengið pláss hjá dagmömmu og eru þeir í aðlögun.

Man ekkert eftir heilu ári

Ragnhildur er fædd og uppalin í Keflavík, með viðkomu í Danmörku í fjögur ár, þar sem móðir hennar og nafna, Ragnhildur Steinunn, var í námi ásamt föður hennar.
„Mamma var menntaður tækniteiknari og pabbi, Jón Þór Harðarson, er véltæknifræðingur og meistari í bifvélavirkjun. Hann starfaði lengst af hjá ÍSAL í Straumsvík. Ég var lengi einbirni en eignaðist svo hálfsystur, Telmu Karen, sem er þrettán ára. Hún er stór hluti af okkar fjölskyldu, það má eiginlega segja að hún sé eins og okkar fimmta barn.“

Ragnhildur var aðeins sjö ára þegar móðir hennar lést eftir baráttu við krabbamein.
„Mamma var bara 27 ára þegar hún lést, og pabbi orðinn ekkill 28 ára. Hún fékk Hodkins-krabbamein, en nú orðið er hægt að meðhöndla sjúkdóminn með góðum árangri og því hefði hún líklega lifað ef þetta hefði gerst í dag,“ segir hún.

Hvað manstu frá þessum tíma?

„Það er erfitt að vita hvað er raunveruleg minning en ég man eftir ótrúlega góðri mömmu og þó að langt sé um liðið þá finnst mér ennþá svolítið erfitt að tala um þetta, sérstaklega eftir að ég eignaðist sjálf börn,“ segir Ragnhildur.

„Þrátt fyrir að vera ung áttaði ég mig að einhverju leyti á veikindum hennar. Minningin um það þegar mér var tilkynnt að hún væri dáin er enn ljóslifandi. Ég man þéttingsfast faðmlag en eftir það ekkert. Ég man ekki eftir jarðarförinni né neinu öðru næsta árið. Mér finnst ekki ólíklegt að ég hafi fengið áfall,“ segir hún og segir tímana vissulega hafi verið öðruvísi í þá daga og minna talað við börn um sorg og missi.

„Við vorum því bara tvö eftir, ég og pabbi, og hann elur mig einn upp. Ég var fljótt mjög sjálfstæð enda gerði ég mér grein fyrir því að við pabbi þyrftum að standa saman til að komast í gegnum þetta. Eitt af því dýrmætasta sem pabbi kenndi mér er að maður uppsker eins og maður sáir og það hafa svo oft reynst orð að sönnu,“ segir hún.

Skoraði fyrir mig mark

Ástin kviknaði strax á unglingsárum og hafa þau Haukur Ingi og Ragnhildur verið saman síðan þá.
„Ég æfði bæði fimleika og körfubolta og valdi svo fimleikana sem ég æfði alveg til tvítugs,“ segir Ragnhildur en það voru einmitt íþróttirnar sem leiddu táningana saman.
„Ég var bara fimmtán og hann að verða átján þegar við kynntumst. Það var auðvitað í íþróttahúsinu þar sem hann var á fótboltaæfingu en ég á fimleikaæfingu,“ segir hún og upplýsir að þau hafi þá fylgst með hvort öðru úr fjarlægð í einhvern tíma.
„Svo fékk ég skilaboð frá vini hans um að ég ætti að mæta á næsta úrvalsdeildarleik því hann ætlaði að skora fyrir mig. Hann stóð við stóru orðin og þá var þetta bara komið,“ segir Ragnhildur og brosir.

Haukur var efnilegur fótboltamaður og fljótlega eftir að þau kynntust fór hann til Englands, á samning hjá Liverpool.

„Ég fór þá út til hans af og til og flutti svo til Englands þegar ég átti ár eftir af framhaldsskólanunum. Við fluttum svo heim og fórum bæði í háskólanám,“ segir hún.
Ragnhildur segist fljótt hafa vitað að Haukur væri maðurinn í lífi hennar.
„Hann er einstakur. Við erum ólík en samt lík og ég gæti ekki hugsað mér betri lífsförunaut.“

Tvíburar í felum

Ragnhildur og Haukur giftu sig árið 2018 á fallegum stað á Ítalíu en þau hafði lengi dreymt um brúðkaup á erlendri grundu, innan um blóm og falleg tré.

Ragnhildur og Haukur giftu sig rétt fyrir utan Verona á …
Ragnhildur og Haukur giftu sig rétt fyrir utan Verona á Ítalíu árið 2018. Stuttu eftir heimkomuna fengu hjónin að vita að von væri á tvíburum. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

„Við fundum stað í hæðunum rétt fyrir utan Verona. Í brúðkaupinu voru aðeins nánustu vinir og ættingjar. Ég er algjör blóma- og trjáaunnandi og þarna fann ég garð sem meðal annars er notaður við kennslu í garðyrkjufræðum. Umhverfið heillaði okkur undir eins enda á garðurinn sér langa og merkilega sögu,“ segir hún og sýnir blaðamanni dásamlegar brúðarmyndir sem eru eins og úr ævintýraveröld.

„Svo þegar við vorum að leggja af stað heim til Íslands var ég alveg viss um að ég væri ólétt. Ég fann það á mér,“ segir hún og segist hafa fengið staðfestingu á því við heimkomuna.

„Við fórum svo í sónar og þá er okkur sagt að ég sé líklegast með utanlegsfóstur. Það var auðvitað áfall og við tók tveggja daga rannsókn. Okkur var sagt að mögulega þyrfti ég að fara í aðgerð til að fjarlægja annan eggjaleiðarann. Nokkrum dögum síðar var ég svo kölluð inn í aðra skoðun og þá sást fósturvísir. Hins vegar var enginn hjartsláttur greinanlegur og við vorum því beðin um að koma aftur viku seinna. Við krossuðum fingur að þetta litla líf myndi dafna. Í þriðju skoðuninni var okkur svo sagt að ég gengi með tvíbura,“ segir hún og þó að það hafi tekið smá tíma að melta þessar fréttir var gleðin að vonum mikil,“ segir hún.
„Tindur og Stormur fæddust svo í mars 2019 og enn eru þeir stöðug uppspretta gleði en eiga eflaust líka eitthvað í baugunum og gráum hárum sem við foreldrarnir skörtum, “ segir hún og brosir.

Söngvakeppnin vítamínsprauta

Söngvakeppnin er eitt af þeim stóru verkefnum sem Ragnhildur Steinunn hefur haldið utan um og leitt nær viðstöðulaust frá árinu 2007 og sinnir enn. 

„Í upphafi kom ég inn í Söngvakeppnina sem kynnir enda hafði ég litla sem enga reynslu af dagskrárgerð og framleiðslu á þeim tíma. Hlutverk mitt þar hefur svo breyst með árunum og hef ég haldið utan um dagskrárgerð og kem að flestu sem við kemur keppninni ásamt Rúnari Frey Gíslasyni. Fyrir um sex árum byrjuðum við markvisst að byggja keppnina upp og óhætt er að segja að sú vinna hafi gengið vel. Þetta er algjör vítamínsprauta inn í janúar og febrúar hjá mér og einstaklega skemmtileg vinna,“ segir hún.

„Það er gaman að leika; að geta fjarlægst sjálfa sig …
„Það er gaman að leika; að geta fjarlægst sjálfa sig í smá stund,“ segir Ragnhildur en hún hefur leikið í sex kvikmyndum. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

 „Ég hef verið svo lánsöm að fá tækifæri til að vaxa og þróast í starfi innan veggja RÚV. Smátt og smátt fékk ég að koma meira að dagskrártengdum málefnum sjónvarps og það, meðal annars, leiddi af sér að ég var ráðin aðstoðardagskrárstjóri sjónvarps árið 2018; starf sem ég gegni enn,“ segir Ragnhildur og segir starfið henta sér fullkomlega. 

Bíð eftir að Balti hringi

Bökkum aðeins; nú hefur þú leikið í kvikmyndum líka. Hvernig vildi það til?

„Já, einmitt,“ segir hún og hlær.

„Þegar ég var lítil þá átti ég mér draum um að verða leikkona og sótti um hlutverk í Bíódögum, en fékk ekki. Eftir að hafa tekið þátt í nokkrum leiksýningum, eins og Kalla á þakinu og Fame eins og ég nefndi áðan, leiddi eitt af öðru,“ segir Ragnhildur.
„Ég var svo beðin um að koma í prufu fyrir aðalhlutverkið í Astrópíu. Leikstjóri myndarinnar taldi mig réttu manneskjuna í hlutverkið, en mér fannst launin of lág þannig að ég afþakkaði gott boð. Leikstjórinn var hins vegar staðráðinn í að ráða mig þannig að ég settist aftur við samningsborðið með framleiðendum myndarinnar og það tókst að semja. Í kjölfar þess lék ég í fleiri kvikmyndum. Það er gaman að leika; að geta fjarlægst sjálfa sig í smá stund,“ segir Ragnhildur.

 „Ég er ekki menntuð leikkona en ég er ágæt í að taka leiðsögn. Ef leikstjórinn er góður er hægt að galdra ýmislegt fram,“ segir Ragnhildur en hún hefur leikið alls í sex kvikmyndum. 
„Nú bíð ég bara eftir að Balti hringi,“ segir hún og hlær.

Hamingja barna minna

Kaffið er löngu kólnað í bollunum og börnin þurfa athygli móður sinnar. Við eigum þó eftir að tala um áhugamálin, þó að ljóst sé að fjölskyldan og vinnan séu áhugamál númer eitt, tvö og þrjú. En eitt á hug Ragnhildar sem er algjörlega ótengt vinnu og fjölskyldu.
„Það eru blómin, hin börnin mín; ég elska blóm,“ segir hún og hlær.
„Mig dreymir um að eignast gróðurhús. Það er skemmtilegt að segja frá því að ég erfði víst þennan áhuga frá mömmu minni. Pabbi lét mig hafa allar gömlu garðyrkjubækurnar hennar. Mér þykir mjög vænt um það; það tengir okkur á einhvern hátt,“ segir hún.
„Svo finnst mér æðislegt að fara í göngu- og hjólatúra. Það er ekki mikið pláss í lífinu fyrir ræktina þannig að ég reyni að hreyfa mig um leið og ég get notið samverustunda með fjölskyldunni. Það tekur á að ýta á undan sér tvíburavagni,“ segir hún kímin.
Ragnhildur nýtur þess að lifa lífinu og njóta augnablikanna.

„Maður þarf að leyfa sér að taka þátt í eigin tilveru; það má ekki drekkja sér í vinnu. Lífið er ævintýralegt ferðalag.“

Spurð um framtíðarplön segir Ragnhildur: „Langtímaplanið snýr að hamingju barna minna og að njóta lífsins með þeim. Ég hefði aldrei ímyndað mér að eignast fjögur börn, ég sem er alin upp sem einbirni. Ég nýt þess í botn að vera mamma. Það er vissulega krefjandi á köflum en að sama skapi svo mikil betrun,“ segir Ragnhildur.

„En svo er það þetta jafnvægi milli vinnu og fjölskyldu eins og ég nefndi áðan. Þessi dýrkun á duglega fólkinu sem vinnur allan sólarhringinn er hættuleg. Ég vil að það sé dáðst að mér fyrir hvernig ég sinni börnum og fjölskyldu; ekki bara vinnunni minni. Það geta margir leyst mig af í vinnunni en það á enginn að leysa mig af í móðurhlutverkinu.“

Ítarlegt viðtal er við Ragnhildi Steinunni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert