Gæddu sér á afrískum mat til styrktar bágstöddum

Alex Jallow, eigandi Ogolúgó, og Eliza Reid forsetafrú.
Alex Jallow, eigandi Ogolúgó, og Eliza Reid forsetafrú. mbl.is/Íris

Ogolúgó er nýr veitingastaður á Laugavegi 85 í Reykjavík þar sem gestum gefst kost á að kynna sér afríska matargerð. Eigandi staðarins, Alex Jallow, er frá Gambíu og stóð í gær fyrir viðburðinum Taste of Africa þar sem boðið var upp á ferskan og ljúffengan afrískan mat.

Alex vildi láta gott af sér leiða og var viðburðurinn því til styrktar Hjálparstarfs kirkjunnar sem veitt hefur bágstöddum aðstoð vegna kórónuveirunnar, sér í lagi innflytjendum. Það seldist upp á viðburðinn á örfáum mínútum og meðal gesta var Eliza Reid, forsetafrú.

Það var glatt á hjalla á Ogolúgó á Laugaveginum í …
Það var glatt á hjalla á Ogolúgó á Laugaveginum í gær. Hér sést Alex Jallow spjalla við gesti sína mbl.is/Íris

Vill láta gott af sér leiða 

„Við vildum bara gera eitthvað gott fyrir fólk sem býr við bág kjör vegna þess ástands sem skapast hefur í kjölfar kórónuveirufaraldursins,“ segir Alex í samtali við mbl.is.

Alex hefur búið á Íslandi í 19 ár og er menntaður kokkur frá Le Cordon Bleu í London. Hann starfaði sem yfirkokkur á Hotel Odense og hefur auk þess starfað á veitingastöðum í Lundúnum og Lyon í Frakklandi. Alex er vanur því að vera innan um forseta og forsetafrúr enda starfaði hann í eldhúsi Bessastaða í tilefni af hátíðarviðburði sem haldin var á Bessastöðum í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar.

Uppselt varð á viðburðinn innan örfárra mínútna. Þeim fjölmörgu sem …
Uppselt varð á viðburðinn innan örfárra mínútna. Þeim fjölmörgu sem ekki komust er bent á styrktarreikning Hjálparstarfs kirkjunnar. mbl.is/Íris

Hvetur fólk til þess að styrkja

Góð stemning var á Ogolúgó eins og sjá má á myndum sem ljósmyndari mbl.is tók í gær. Eliza Reid forsetafrú gæddi sér á ljúffengum veitingum sem í boði voru ásamt kátum gestum.

Alex hvetur þau sem ekki komust á viðburðinn og vilja styrkja Hjálparstarf kirkjunnar að leggja samtökunum lið. Leggja má beint á reikning þeirra.

Kennitala: 450670-0499
Reikningsnúmer: 0334-26-000027

mbl.is