Ómannúðlegt ef svör fást ekki frá ríkinu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist sammála Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um að ómannúðlegt geti talist að láta fólk, og þá sér í lagi börn, dvelja hér á landi of lengi í óvissu um það hvort það verði sent úr landi eða ekki. 

Í máli egypsku fjölskyldunnar sem senda á úr landi á miðvikudag, eins og greint hefur verið frá á mbl.is, lá hins vegar fyrir niðurstaða hjá kærunefnd útlendingamála innan þess tímaramma sem gefinn er til þess að veita vernd vegna mannúðarsjónarmiða. 

Sá tímarammi er 16 mánuðir í tilfelli barna og er hann styttri en hjá mörgum nágrannaþjóðum okkar, að sögn dómsmálaráðherra.

Frestur í málefnum barna skýr 

„Um leið og niðurstaða liggur fyrir hjá kærunefnd útlendingamála býðst fólki að fara úr landi sjálfviljugt með aðstoð íslenska ríkisins. Nýti fólk sér það ekki kemur óhjákvæmilega til brottvísunar,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is. Hún segir jafnframt að frestur sem settur var í málefnum barna á flótta sé skýr. 

„Við höfum sett skýra fresti um það hvenær unnt er að veita fólki dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða. Sá frestur sem settur er hér á landi er styttri en víða í kringum okkur og eru því meiri kröfur gerðar hér á landi til kerfisins heldur en hjá mörgum nágrannaþjóðum okkar. Sér í lagi því við vitum að tími í lífi barna er dýrmætur.“

Tilefni til athugunar 

Áslaug segir jafnframt að tilefni hafi verið til þess að kanna hvers vegna biðtími egypsku fjölskyldunnar, frá því niðurstaða lá fyrir hjá kærunefnd útlendingamála og þar til til brottvísunar kemur, hafi verið jafnlangur og raun ber vitni. 

„Þetta mál gaf tilefni til þess að athuga hvers vegna það líður svona langur tími milli niðurstöðu nefndarinnar og brottvísunar. Þess vegna óskaði ég skýringa á þeim tíma, sem hefur verið of langur.

„Ekki við kerfið að sakast“

Við höfum áður gert ráðstafanir vegna kórónuveirufaraldursins eða þegar kerfið hefur verið of svifaseint. En nú liggur fyrir í þessu máli að biðtíminn lengdist ekki vegna þess. Það er því ekki við kerfið að sakast,“ segir Áslaug Arna og bætir við að mögulega geti þó komið til þess að skoða þurfi tímann sem brottvísun tekur ef einhverjir þættir í kerfinu tefja slíkt.

Í máli egypsku fjölskyldunnar hafi niðurstaða stjórnvalda legið fyrir í nóvember og athugunin hafi leitt í ljós að ekki sé við kerfið að sakast um að brottvísun hafi dregist um þessa mánuði. 

Vill rýmka heimildir til veitingu atvinnuleyfa

Dómsmálaráðherra ítrekar einnig að skoða þurfi reglur um atvinnuleyfi, sem heyra undir félagsmálaráðherra því ljóst væri að margir leituðu í neyðarkerfið sem væru í leit að betri lífskjörum þótt þeir fengju ekki vernd hérlendis.

„Það er erfitt fyrir einstaklinga frá löndum utan EES að fá atvinnuleyfi á Íslandi. Það er löngu tímabært að endurskoða löggjöfina hvað það varðar og rýmka heimildir útlendinga til að koma hingað til að starfa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert