Um hundrað leitað til heilsugæslu vegna eftirkasta

Um 100 einstaklingar hafa leitað til heilsugæslunnar með eftirköst vegna …
Um 100 einstaklingar hafa leitað til heilsugæslunnar með eftirköst vegna kórónuveirunnar. mbl.is/​Hari

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, telur að um hundrað einstaklingar hafi leitað til heilsugæslunnar með eftirköst vegna kórónuveirunnar.

Helstu einkennin eru kraftleysi, þreyta og úthaldsleysi. Sumir fá endurtekin einkenni eins og það sé hálflasið, segir Óskar í samtali við mbl.is.

Ekki séu fyrir hendi nákvæmar upplýsingar, svo sem aldur eða alvarleiki veikinda, um þá sem fengið hafa eftirköst.

Heilsugæslan óskaði eftir fyrirspurnum meðal lækna á höfuðborgarsvæðinu um málið, en Óskar segir að stefnt sé að því að rannsaka eftirköst nánar.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Erfitt að gera sér grein fyrir umfanginu

Óskar segir að eftir allar erfiðar sýkingar séu einhverjir einstaklingar sem eru lengi að ná sér. Ekki sé liðinn mjög langur tími frá því faraldurinn barst til landsins, svo erfitt sé að gera sér grein fyrir því hvort um séu að ræða krónísk eftirköst eða ekki.

Þá sé einnig erfitt að bera saman eftirköst eftir kórónuveirusmit og veikindi af völdum annarra sambærilegra veira.

„Ef þú lítur á það þannig að rúmlega tvö þúsund manns hafa fengið sjúkdóminn, þá er ég ekki viss um að það sé skrýtið að það séu margir sem eru lengi að jafna sig,” segir Óskar.

Mikilvægt sé að frekari rannsóknir verði gerðar á eftirköstum af völdum kórónuveirunnar til að gera sér betri grein fyrir umfangi og alvarleika þeirra. Að sögn Óskars verður þróunarmiðstöð Heilsugæslunnar meðal þeirra aðila sem munu taka þátt í slíkri rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert