Senda fjölskylduna í COVID-19 skimun

Fyr­ir­hugað er að senda þau Abdalla, níu ára, Mu­stafa, tveggja …
Fyr­ir­hugað er að senda þau Abdalla, níu ára, Mu­stafa, tveggja ára, Hamza, fimm ára og Rewida, tólf ára, úr landi þann 16. sept­em­ber næst­kom­andi. Ljósmynd/Sema Erla Serdar

„Við teljum ákaflega sorglegt að láta fjölskylduna undirgangast þetta próf eins og þessa brottvísun alla í heild sinni. Það skýtur auðvitað skökku við að á sama tíma og forsætisráðherra landsins stígur fram og talar með þeim hætti sem hún gerði í Sprengisandi þá sé verið að undirbúa þennan brottflutning eins og enginn sé morgundagurinn,“ segir Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður egypskrar fjölskyldu sem senda á úr landi á miðvikudag. 

Undirbúningur fyrir brottvísun er nú í gangi og er skimun fyrir kórónuveirunni hluti af þeim undirbúningi. Magnús telur að undirbúningurinn sé ekki í samræmi við ummæli forsætisráðherra um að skoða þurfi langan málsmeðferðartíma fjölskyldunnar sérstaklega, sem er 15-16 mánuðir eftir því hvernig litið er á málið, og að biðin eftir úrlausn hafi verið ómannúðleg. Magnús telur að orð Katrínar, sem hún lét falla í Sprengisandi um helgina, hafi verið stuðningsyfirlýsing við fjölskylduna. 

„Það þarf ekki annað en að hlusta á það sem hún segir. Hún tiltekur að það sé ómannúðlegt gagnvart þessum börnum að láta þau undirgangast meðferð af þessu tagi og líka þá önnur börn í sambærilegri stöðu. Þetta verður ekki skilið á annan hátt en stuðningsyfirlýsing við fjölskylduna.“

Aðstæður geti breyst hratt

Magnús segir að þrátt fyrir að brottvísun sé fyrirhuguð á miðvikudag geti margt enn gerst. 

„Dagurinn er nýbyrjaður. Það er fyrirhugaður ríkisstjórnarfundur á morgun sem og í allsherjarnefnd. Aðstæður geta breyst hratt. Það sem ég vil taka fram líka er að það hlýtur að hafa einhverja merkingu þegar forsætisráðherra talar með þessum hætti. Hún fer fyrir ríkisstjórninni.“

Heildstæð skoðun á málaflokknum mun ekki bjarga fjölskyldunni, að sögn Magnúsar. Spurður hvað myndi forða þeim frá brottvísun segir Magnús: 

„Áslaug Arna gæti til að mynda breytt reglugerð 540/2017 með mjög einföldum hætti til þess að koma í veg fyrir að mál af þessu tagi komi upp. Hún segir ekki kærunefnd útlendingamála fyrir verkum en ráðherra getur að sjálfsögðu gefið út einhvers konar almenn leiðbeinandi tilmæli út til stjórnsýslunnar. Nærtækast væri að breyta reglugerðinni.“

Hafa dvalið rúma 16 mánuði hérlendis

Magnús er ósammála fullyrðingu Áslaugar Örnu um að ekki sé við kerfið að sakast hvað varðar langan málsmeðferðartíma í máli egypsku fjölskyldunnar. Hann bendir einnig á að ef ekki er kveðinn upp úrskurður innan 16 mánaða á stjórnsýslustigi sé heimilt að veita barni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. 

„Þegar niðurstaða var kveðin upp í þeirra máli og þeim birt sú niðurstaða voru liðnir 15 mánuðir og 11 dagar. Þá var þeim gefinn 30 daga frestur til þess að yfirgefa landið. Á meðan þessir 30 dagar líða eru þau í löglegri dvöl í landinu. Þau ná 16 mánuðum og 11 dögum í löglegri dvöl á landinu,“ segir Magnús og bætir við:

„Það er aftur á móti spurning um það hvar þú átt að draga mörkin. Hvort það sé við uppkvaðningu úrskurðar eða þegar frestur til að yfirgefa landið rennur út ellegar við framkvæmd frávísunar eða brottvísunar. Það eru ólíkar túlkanir á því hvernig eigi að meta þennan málsmeðferðartíma sem slíkan. Stóru breytingarnar sem við munum sjá í málaflokknum eru eflaust breytingar á því hvernig þessi málsmeðferðartími er túlkaður.“

Magnús telur að orðræða dómsmálaráðherra um málið sé ólík orðræðu forsætisráðherra. Áslaug sagði þó í samtali við mbl.is í gær að hún væri sammála Katrínu um það að ómannúðlegt gæti talist að láta fólk dvelja hérlendis of lengi í óvissu um hvort það yrði sent úr landi. 

„Áslaug Arna er auðvitað hluti af ríkisstjórninni. Það hlýtur að hafa einhverja merkingu þegar forsætisráðherra, sem fer fyrir ríkisstjórninni, fer fram með þeim hætti sem hún gerði í Sprengisandi í gær. Ríkisstjórnin verður að koma fram sem ein heild í málum sem þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina