Forsvarsmenn Fótbolta.net brutu siðareglur

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur úrskurðað að Hafliði Breiðfjörð, stofnandi og ábyrgðarmaður Fótbolta.net og ritstjórarnir Magnús Már Einarsson og Elvar Geir Magnússon hafi brotið siðareglur í tengslum við nafn og myndbirtingu af Andreu Rán Snæfeld Hauksdóttur knattspyrnukonu eftir að hún hafði greinst með Covid-19. Miðillinn greindi fyrstu frá nafni hennar í tengslum við fréttaflutning af málinu.

Í úrskurðinum sem birtur var í dag kemur fram að siðanefnd telji meginatriði málsins vera að nafn Andreu hafi verið birt í heimildarleysi ásamt mynd af henni í tengslum við frétt af smiti leikmanns í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu.

Málið komið upp eftir að fyrsta bylgja faraldursins hafði gengið yfir og var búið að gefa grænt ljós á að knattspyrnuleikir mættu fara fram á ný. Var megininntak fréttarinnar að Íslandsmótið í knattspyrnu gæti verið í uppnámi vegna þessa.

Segir í úrskurðinum að siðanefndin telji ekki að sérstök nauðsyn hafi verið til að upplýsa um nafn Andreu eða að birta mynd af henni vegna þessa.

Andrea kom síðar í viðtal við mbl.is þar sem hún fór yfir áhrif fréttaflutningsins og nafn- og myndbirtingarinnar. Sagði hún nafnbirtinguna hafa verið áfall og hún hafi farið að kenna sér um þá stöðu sem gæti verið fram undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert