Ljósleiðari lagður 84 km leið yfir Kjöl

Ljósleiðarar hafa verið lagðir víða í dreifbýlinu og landsátakið Ísland …
Ljósleiðarar hafa verið lagðir víða í dreifbýlinu og landsátakið Ísland ljóstengt er í fullum gangi. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Míla ehf. er að hefjast handa í haust við lagningu ljósleiðara á alls 84 kílómetra leið frá Hveravöllum til Skagafjarðar. Um er að ræða síðasta áfanga framkvæmda við að tengja Suðurland og Norðurland með ljósleiðara, sem á að ljúka í nóvember.

Í fyrra var lokið við lagningu ljósleiðara frá Bláfellshálsi að Hveravöllum en frá Hveravöllum verður nú haldið áfram að Þórisvatni um Eyvindarstaðaheiði og Mælifellsdal og endað við Steinsstaði í Skagafirði, að því er kemur fram í skýrslu Skipulagsstofnunar, sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Ljósleiðarinn verður plægður beint í jörðu á 50-60 cm dýpi. Á 15 km kafla fer strengurinn um friðlandið í Guðlaugstungum. „Framkvæmdaraðili áformar að leggja ljósleiðarann innan svæðis sem þegar er raskað, s.s. í slóða og vegi. Þar fyrir utan í svæði sem einkennist fyrst og fremst af melum, sandlendi og mólendi. Á um 100 m kafla fyrirhugaðrar lagnaleiðar innan friðlandsins í Guðlaugstungum er að finna rústamýrar. Farið yrði u.þ.b. 50 m austan við rústirnar til að framkvæmdin hafi ekki áhrif á þær,“ segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert