Lýsa áhyggjum af framtíð Útvarpshússins

Útvarpsstöð Íslands var reist eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Sendar RÚV …
Útvarpsstöð Íslands var reist eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Sendar RÚV voru fluttir annað. mbl.is/Árni Sæberg

„Húsið verður rifið, það er ekkert flóknara en það. Húsið er enda ónýtt, það lekur og þetta er asbest-bygging,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, um fornfrægt hús sem kennt er við Ríkisútvarpið og stendur á Vatnsendahæð.

Neyðarlínan tók nýverið við mannvirkjum á Vatnsendahæð eftir að sendibúnaður RÚV þar var fluttur á Úlfarsfell. Húsið er nú í eigu ríkisins en óvissa hefur skapast um framtíð þess eftir að hlutverki þess lauk. Þórhallur segir aðspurður í samtali við Morgunblaðið að GSM-sendir verði áfram á svæðinu en stefnt sé að því að stóru fjarskiptamöstrin verði tekin niður á næsta ári. Ekki séu áform um nýtingu hússins. Kópavogsbær áformar íbúabyggð á svæðinu á næstu árum.

Útvarpsstöð Íslands var reist á árunum 1929-1930 eftir uppdráttum Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins og hefur alla tíð hýst tæknibúnað útvarpsins, að því er fram kemur í fundargerð húsafriðunarnefndar um stöðu mála þar sem áhyggjum af stöðu mála er lýst.

„Húsið tengist stofnun og sögu Ríkisútvarpsins auk þess að vera áberandi kennileiti á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfar fyrirspurnar til Neyðarlínunnar um framtíðarnot hússins fóru fulltrúar Minjastofnunar í vettvangsskoðun þann 11. ágúst sl. Unnið er að því að fjarlægja úr húsinu tæki og muni sem eru í eigu RÚV og hafa verið geymdir þar undanfarin ár. Er sú vinna gerð í samráði við Þjóðminjasafnið. Viðræður eru hafnar milli ríkisins og Kópavogsbæjar um framtíðarnýtingu Vatnsendahæðar undir íbúðarbyggð. Húsafriðunarnefnd tekur undir sjónarmið Minjastofnunar um sögulegt gildi útvarpshússins á Vatnsendahæð og mikilvægi þess að varðveita það og ætla því verðugan stað í nýju skipulagi,“ segir í fundargerð húsafriðunarnefndar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert