Mikill áhugi á íslenskukennslu

Kristín Einarsdóttir ásamt syni sínum, Högna Grönvold.
Kristín Einarsdóttir ásamt syni sínum, Högna Grönvold. Ljósmynd úr einkasafni

Mikill áhugi er á nýju námi sem verður í boði fyrir íslensk börn og unglinga búsetta erlendis í vetur. Um er að ræða íslenskukennslu sem fer eingöngu fram á netinu og að sögn Kristínar Einarsdóttur, frumkvöðuls og stofnanda Nordic Trailblazers, eru nemendur frá flestum heimsálfum skráðir í námið sem hefst um næstu mánaðamót.

„Íslenskukennslan okkar er einstaklingsmiðuð og sérsniðin getustigi hvers þátttakanda fyrir sig og tekur mið af aðalnámskrá grunnskóla á Íslandi segir Kristín en allir kennarar skólans eru menntaðir móðurmáls- og íslenskukennarar.

Kristín er menntaður iðjuþjálfi, með MPH gráðu í lýðheilsuvísindum og félagsfræði og hefur verið búsett erlendis að mestu síðustu 10 árin. Fyrst bjó hún á Írlandi en nú er hún búsett í Danmörku. 

Erfitt að viðhalda íslensku fyrir börn erlendis

„Ég þekki það af eigin raun að ala upp börn erlendis og hvað það getur verið erfitt að viðhalda íslenskunni sama hversu mikill vilji foreldranna er til þess,“ segir Kristín.

Sennilega er þetta í fyrsta skipti sem íslenska er kennd með þessum hætti fyrir börn búsett erlendis en í einhverjum stórborgum er boðið upp á einhverja íslenskukennslu á vegum Íslendingafélaga á viðkomandi stað og sendiráða.

Erfitt hefur verið að finna einstaklingsmiðaða kennslu yfir netið fyrir íslensk börn sem eru búsett erlendis. 

Kristín segir að markmiðið með íslenskukennslunni sé að aðstoða krakka við að rækta móðurmálið svo þau hafi verkfæri til að byggja ofan á. „Nú þegar allir eru orðnir vanir því að vinna fyrir framan myndavélar og fjarkennsla orðin algeng skapast ákveðin tækifæri í því en kennslan fer fram í gegnum vefforritið Kara Connect. Kara hugbúnaðurinn er byggður með það að leiðarljósi að uppfylla allar kröfur um persónuvernd og er miklu öruggara en mörg önnur samskipti í gegnum netið. Jafnframt nýtum við okkur LearnCove kennsluvefinn, sem er hafnfirskt sprotafyrirtæki,“ segir Kristín.

Hún segir að ýmsar leiðir séu í boði fyrir nemendur en staða grunn- og framhaldsskóla er ólík eftir löndum, ekki síst nú á tímum kórónuveirufaraldursins.

„Margir eru í sínum skóla tvo til þrjá daga í viku með þeim fjarlægðartakmörkunum sem eiga við í hvert skipti. Aðrir eru alfarið að læra heima í gegnum netið. Okkar kennsla er einkakennsla, einstaklingsmiðuð að hverju barni fyrir sig. Mörg systkini eru meðal nemenda hjá okkur þannig að þau eru í samkennslu þrátt fyrir að námsefnið er einstaklingsmiðað og miðar að því að bæta þekkingu þeirra á íslenskri tungu,“ segir Kristín.

47 þúsund Íslendingar búa erlendis

Hún segir að þörfin sé mikil enda búi 47 þúsund Íslendingar í útlöndum eða 14% íslensku þjóðarinnar. Í upphafi verkefnisins hafi markhópur námsins verið fjölskyldur sem búa tímabundið erlendis en í ljós hefur komið að þörfin er víðar. 

„Tugþúsundir búa annars staðar á Norðurlöndunum og 6.700 búa í Bandaríkjunum. Þetta er ansi mikill fjöldi. Það sem hefur komið okkur einna mest á óvart er að börn sem eru fædd og uppalin erlendis eru stærsti hluti nemendanna hjá okkur en við áttum von á að flest þeirra væru aðeins búsett tímabundið erlendis, til að mynda börn námsmanna,“ segir Kristín.

Hún segir Þörfina gríðarlega mikla fyrir íslenskukennslu erlendis og þar skipti miklu breytt heimsmynd. Eins að fólk horfi í dag meira á gildi Íslands og að vera Íslendingur segir hún.

Foreldrar vilji fjárfesta í framtíð barna sinna, meðal annars með því að efla íslensku kunnáttu þeirra. Það gefi þeim kost á að fara í framhaldsnám á Íslandi við íslenska framhaldsskóla og háskóla.

Undanfarnar vikur hafa farið fram viðtöl við nemendur og foreldra þeirra, vinna við stöðumat og námsáætlanir en að sögn Kristínar er einstaklingsmiðuð íslenskukennsla aðeins upphafið af íslenskukennslu á vegum Nordic Trailblazers því í framtíðinni er stefnt á að bjóða upp á stöðluð íslenskunámskeið á netinu hjá skólanum.

Nordic Trailblazers hafa boðið upp á iðjuþjálfun frá árinu 2018 og eins er að fara af stað talþjálfun á vegum fyrirtækisins. „Áherslan þessa önnina verður aftur á móti á íslenskukennsluna þar sem þörfin þar er svo mikil,“ segir Kristín í samtali við mbl.is.

Netfangið hjá Kristínu er kristin@nordic-trailblazers.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert