Þrír grunaðir um brot á sóttvarnalögum

Sóttvarnahúsið við Rauðarárstíg.
Sóttvarnahúsið við Rauðarárstíg.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti að hafa afskipti af þremur einstaklingum síðdegis í gær sem allir eru grunaðir um brot á sóttvarnalögum.

Á sjöunda tímanum í gær hafði lögregla afskipti af tveimur einstaklingum í Austurbænum (hverfi 108) sem áttu að vera í skimunarsóttkví til 24. september. Þeir höfðu skráð sig út úr  sóttvarnahúsi og tekið strætisvagn að heimili sínu. Tvímenningarnir voru fluttir af lögreglu í sóttvarnahúsið að nýju. 

Klukkutíma fyrr hafði lögreglan haft afskipti af manni sem er grunaður um líkamsárás og brot á sóttvarnalögum á Hlemmi. Maðurinn er grunaður um að hafa hrækt í andlit vagnstjóra hjá Strætó.

Á sjötta tímanum í gær var maður handtekinn grunaður um líkamsárás í miðborginni. Hann var látinn laus að lokinni skýrslutöku og áverkar árásarþola sagðir minni háttar.

Kona var handtekin í Austurbænum (hverfi 108) síðdegis í gær grunuð um nytjastuld bifreiðar og þjófnað. Bifreiðin sem hún er grunuð um að hafa stolið var komin á önnur skráningarnúmer sem áður höfðu verið tilkynnt stolin. Konan er vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Lögreglu var tilkynnt um búðarþjófnað á Fiskislóð í gærkvöldi og var skrifuð skýrsla á vettvangi. Í gærkvöldi var aftur á móti tilkynnt um þjófnað á bíllyklum í miðborginni. Þar hafði maður skilið bifreið eftir í gangi meðan hann hljóp inn í hús til að sækja hlut. Er maðurinn kemur til baka var búið að aka bifreiðinni að húsi hinum megin götunnar og stela lyklunum úr bifreiðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert