Viðræðum um fríverslunarsamning ljúki í tæka tíð

Guðlaugur Þór ásamt Ranil Jayawardena.
Guðlaugur Þór ásamt Ranil Jayawardena. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á það á fundi með breskum ráðherra að ljúka viðræðum um nýjan fríverslunarsamning í tæka tíð svo hann gæti tekið gildi fyrir árslok.

Guðlaugur Þór fundaði með Ranil Jayawardena, ráðherra utanríkisviðskipta í Bretlandi, um fríverslunarsamning á milli landanna.

Einnig átti Guðlaugur Þór fund með Wendy Morton, ráðherra Bretlands fyrir málefni Evrópu og Ameríku, þar sem sterk tengsl Íslands voru efst á baugi og sömuleiðis ástandið í Hvíta-Rússlandi og eitrunin sem leiðtogi rússnesku stjórnarandstöðunnar varð fyrir, að því er kemur fram í tilkynningu.

Styrki pólitísk tengsl landanna

Þá hitti Guðlaugur Þór Tom Tugendhat, formann utanríkismálanefndar breska þingsins, og ræddi sameiginlega hagsmuni varðandi viðskipti með sjávarafurðir við þingmenn Grimsby- og Humber-svæðisins, þau Martin Vickers og Lia Nici.

„Bæði íslenskum og breskum stjórnvöldum er fyllilega ljóst hve miklir hagsmunir eru í húfi enda leggja Bretar áherslu á viðræður við Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES. Markmið okkar eru skýr þar sem við vinnum út frá sérstöðu Íslands og kjarnahagsmunum. Það er mikilvægt að nota þetta tækifæri til að bæta viðskiptakjörin þar sem hægt er og tryggja samkeppnisstöðu okkar fyrirtækja. Fríverslunarsamningur styrkir enn fremur pólitísk tengsl landanna og það er ekki síður mikilvægt,“ segir Guðlaugur Þór í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert