Von á mistri vegna gróðureldanna á morgun

Mistur er á leiðinni hingað til lands en því fylgir …
Mistur er á leiðinni hingað til lands en því fylgir lægð sem gerir það síður sýnilegra. Líklegt er að mistur muni oftar berast hingað til lands á meðan gróðureldarnir geisa. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Enn er útlit fyrir að mistur frá gróðureldum á vesturströnd Bandaríkjanna berist yfir Atlantshafið og til norðurs, að sögn Elínar Bjarkar Jónasdóttur veðurfræðings. Þar sem lofti úr vesturátt fylgir vanalega lægð muni mistrið ekki sjást í þurru lofti en gæti greinst í efnagreiningum, á morgun og fimmtudag. 

„Það er ólíklegt á þessum árstíma að við fengjum einhvers konar þurrviðri, sem gerði okkur kleift að sjá mistrið,“ segir Elín í samtali við mbl. Segir hún líkur á því að ryk frá gróðureldunum muni berast hingað til lands á meðan þeir loga.

„Það kemur ekki mistur nema til staðar sé einhvers konar mengunaruppspretta og það er ekki langt síðan eldarnir kviknuðu. Einnig skipta árstíðaskiptin máli og nú er tímabil lægðanna komið,“ segir hún.

mbl.is