213 milljóna króna gjaldþrot Manna í vinnu

Lýstar kröfur í Menn í vinnu námu 213,4 milljónum, en …
Lýstar kröfur í Menn í vinnu námu 213,4 milljónum, en ekkert fékkst upp í þær. mbl.is/Eggert

Gjaldþrot félagsins MIV ehf., sem áður hét Menn í vinnu ehf., nam 213,4 milljónum króna, en engar eignir fundust í búinu upp í lýstar kröfur. Þetta kemur fram í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu.

Menn í vinnu var starfsmannaleiga, en málefni hennar rötuðu á síður fjölmiðla í október árið 2018 eftir að Kveikur fjallaði um dökkar hliðar íslensks vinnumarkaðar. Var þá meðal ann­ars fjallað um mál­efni Manna í vinnu, en for­stjóri Vinnu­mála­stofn­un­ar hafði sagt að fyr­ir­tækið væri í gjör­gæslu og var það meðal ann­ars sektað um 2,5 millj­ón­ir vegna rangr­ar upp­lýs­inga­gjaf­ar til stjórn­valda.

Í febrúar í fyrra fjallaði Stöð 2 svo um málefni rúmenskra starfsmanna sem töldu sig hlunnfarna af starfsmannaleigunni. Í tengslum við þá umfjöllun var meðal annars rætt við starfsmann ASÍ sem sagðist hafa séð bankareikninga starfsmanna þar sem leigan hefði lagt inn laun en svo tekið þau jafnharðan út aftur. Dæmdi héraðsdómur þessi ákveðnu ummæli dauð og ómerk.

Félagið var að lokum lýst gjaldþrota í september í fyrra. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafði nokkrum mánuðum áður sagt að félagið stefndi í gjaldþrot og að verið væri að færa starfsemina í félag undir nýju nafni og á annarri kennitölu sem félagið Seigla ehf.

mbl.is