Allt starfsfólk ÍE sent í skimun vegna smits

Höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýri. Þar hefur greining sýna farið …
Höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýri. Þar hefur greining sýna farið fram að undanförnu. mbl.is/Sverrir

Nemandi við Háskólann í Reykjavík sem hafði unnið að verkefni hjá Íslenskri erfðagreiningu (ÍE) greindist smitaður af kórónuveirunni í gær. Í kjölfarið voru allir sem störfuðu á sömu hæð og nemandinn sendir í skimun og svo í sóttkví. Í dag verða allir starfsmenn ÍE skimaðir fyrir veirunni. Enginn annar en nemandinn hefur greinst smitaður enn sem komið er. 

Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, í samtali við mbl.is. Nemandinn, ungur piltur, hafði ekki verið í húsi síðan á fimmtudaginn í síðustu viku. 

„Við reiknum með því að ef einhverjir hefðu smitast af honum þá hefðu þeir greinst jákvæðir í gær. Síðan eru allir í húsinu skimaðir í dag. Svo voru tveir einstaklingar sem voru í nánum tengslum við þennan pilt utan fyrirtækisins sendir í sóttkví og verða þar þangað til þeir eru búnir að vera í viku – þá verða þeir prófaðir aftur.“

Sýni sem tekin eru vegna kórónuveirunnar hafa að undanförnu verið greind í húsnæði ÍE. Spurður hvort smitið hafi einhver áhrif á skimun ÍE segir Kári: 

„Það hefur alls konar áhrif, til dæmis þau að við skimum núna allt húsið. Einnig að við ætlum að bjóða upp á að skima báða háskólana, Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Við erum farin að sjá mynstur sem bendir til þess að það sé dálítið mikið um svona smit þar sem unga fólkið vinnur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert