Bera saman efnahagsspár fyrir og eftir veiru

Fækkun ferðamanna vegna heimsfaraldurs hefur haft veruleg áhrif á íslenskan …
Fækkun ferðamanna vegna heimsfaraldurs hefur haft veruleg áhrif á íslenskan efnahag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Áhrif kórónukreppunnar á efnahag og vinnumarkað, samanburður á efnahagsspám fyrir og eftir heimsfaraldur, breytingar og dreifing launa í yfirstandandi samningalotu og fleira er á meðal þess sem tekist er á við í fyrstu skýrslu kjaratölfræðinefndar.

Hún kemur út í dag og verður kynnt í streymi klukkan 11.00.  

„Skýrslan skiptist í fjóra meginkafla sem fjalla um efnahagsmál, umgjörð kjarasamninga, gerða kjarasamninga í yfirstandandi kjaralotu og mælingar Hagstofu Íslands á launaþróun sem flokkaðar eru eftir heildarsamtökum launafólks og launagreiðenda,“ segir í tilkynningu um skýrsluna.

„Í efnahagskafla er farið yfir áhrif kórónukreppunnar á efnahag og vinnumarkað og samanburður gerður á efnahagsspám fyrir og eftir heimsfaraldurinn. Viðbrögðum stjórnvalda er lýst og ljósi varpað á tvær nýlegar kreppur.“

Markmiðið að stuðla að skilningi á eðli hagtalna

Meginefni skýrslunnar eru breytingar og dreifing launa í yfirstandandi samningalotu samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Þá er þar einnig fjallað um helsta inntak kjarasamninga, þ.á m. launabreytingar og styttingu vinnutíma.

„Í kafla um umgjörð kjarasamninga er lýst skipulagi samtaka á vinnumarkaði, lagaumhverfi og hlutverki ríkissáttasemjara. Þá fylgir skýrslunni yfirlit yfir gerða kjarasaminga.“

Kjaratölfræðinefndin var skipuð af félags- og barnamálaráðherra 21. nóvember 2019. Hennar hlutverk er að draga saman og vinna úr talnaefni um launa- og efnahagsmál til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum.

„Markmiðið er að stuðla að sameiginlegum skilningi á eðli, eiginleikum og þróun hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga. Áformað er að skýrslur nefndarinnar komi út tvisvar á ári,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu.

„Fyrsta skýrsla kjaratölfræðinefndar er unnin við þær óvenjulegu aðstæður að hraðar og miklar breytingar eru að verða á högum launafólks vegna kórónuveirufaraldursins. Það er von okkar að skýrslan nýtist samtökunum vel við mat á stöðu félagsmanna sinna,“ er haft eftir Eddu Rós Karlsdóttur, formanni kjaratölfræðinefndar, í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert