Börnin höfðu ekkert með þetta að gera

Brottvísuninni mótmælt á Austurvelli í gær.
Brottvísuninni mótmælt á Austurvelli í gær. mbl.is/Hallur

Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður egypsku fjölskyldunnar sem átti að vísa úr landi í morgun, segir, að að sínum dómi hefðu stjórnvöld haft 48 daga til að undirbúa og framkvæmda frávísunina. Í versta falli væru það 20 dagar frá 9. janúar og fram til 28. janúar, eða næstum þrjár vikur.

Í yfirlýsingu segir hann bagalegt að fyrirsvarsmenn Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra hafi stigið fram og kennt fjölskyldunni sjálfri alfarið um tafirnar sem hafa orðið á málinu.

Embætti ríkislögreglustjóra sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem sagði að ekki væri rétt að stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi haft sex vikur til að flytja fjölskylduna úr landi. Áður hafði Magnús haldið því fram að yfirvöld hefðu haft tæpa 50 daga til að flytja fólkið úr landi á gildum skilríkjum. Sagði hann að Þor­steinn Gunn­ars­son, sviðsstjóri hjá Útlend­inga­stofn­un, hefði ekki farið með rétt mál í Kast­ljósi í gær­kvöldi.

„Óháð þessari umræðu um, hver hafi tafið málið og hversu langan tíma stjórnvöld höfðu til að framkvæma frávísun á gildistíma vegabréfa, þá er aðalatriðið að börnin fjögur höfðu ekkert með þetta að gera en héldu eftir sem áður áfram að aðlagast meðan tíminn leið,“ segir Magnús í yfirlýsingunni.

„Stjórnvöldum ber á grundvelli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og 76. gr. stjórnarskrárinnar að haga málum þannig að hagsmunir barna séu í fyrsta sæti. Það er augljóslega andsætt hagsmunum þeirra í kjölfar rúmlega tveggja ára aðlögunar að vera rifin upp með rótum og vísað úr landi.“

Frá mótmælunum á Austurvelli.
Frá mótmælunum á Austurvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í yfirlýsingunni segir Magnús að það hafi enga sjálfstæða þýðingu að mál fjölskyldunnar hafi flust frá einu skrifborði stjórnsýslunnar yfir á annað. Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og stoðdeild ríkislögreglustjóra myndi heildsætt kerfi en um það hafi verið fjallað af hálfu umboðsmanns Alþingis.

„Úrskurður um frávísun var birtur fjölskyldunni þann 18. nóvember og þá hafði fjölskyldan 30 daga til að yfirgefa landið sjálfviljug. Að þeim tíma liðnum þann 18. desember 2019 var úrskurðurinn framkvæmdarhæfur en þá voru 48 dagar þar sem vegabréf allra í fjölskyldunni voru gild, þ.e. fram til 28. janúar 2020,“ segir hann.

„Þótt niðurstaða varðandi frestun réttaráhrifa hafi ekki legið fyrir fyrr en 8. janúar þá hefðu stjórnvöld auðveldlega getað hafið undirbúning að frávísun og þá eru einnig dæmi þess að stoðdeild hafi gert til tilraun til að flytja hælisleitendur úr landi meðan beðið er svars varðandi frestun réttaráhrifa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert