Engin viljayfirlýsing undirrituð

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/​Hari

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að ekki hafi nein sameiginleg viljayfirlýsing sambandsins og Icelandair verið undirrituð á fundi miðstjórnar ASÍ sem haldinn var í morgun. Heimildir mbl.is herma þó að sátt hafi náðst í deilu ASÍ og Icelandair.

Kjarninn greindi svo frá því fyrr í dag að á fundi miðstjórnar hafi verið lögð fram sameiginleg viljayfirlýsing ASÍ og Icelandair um að deilum þeirra, sem upp spruttu í júlí þegar Icelandair Group sagði upp öllum flugfreyjum félagsins, skyldi ljúka. Þær deilur hafi átt að fara fyrir félagsdóm en að frá því yrði fallið samkvæmt yfirlýsingunni, eins og fullyrt er í frétt Kjarnans.

„Það er ekki unnt að afhenda neina yfirlýsingu þar sem ekki var skrifað undir neina sameiginlega yfirlýsingu á fundi miðstjórnar í morgun. Um mál sem tekin eru fyrir á fundum miðstjórnar ASÍ ríkir trúnaður og mun þar við sitja að svo stöddu,“ segir Drífa Snædal í samtali við mbl.is.

Deila ASÍ og Icelandair hefur staðið síðan í júlí eftir að Icelandair sagði upp öllum flugfreyjum eftir að Flugfreyjufélag Íslands hafnaði tilboði Icelandair um endurnýjum kjarasamninga. Svo fór að uppsagnirnar voru dregnar til baka og samningar náðust. 

Aðför að réttindum vinnandi fólks

Drífa Snædal sagði í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær að ákvörðun Icelandair um að segja upp öllum flugfreyjum- og þjónum í miðri kjaradeilu og ætla sér að semja við annað stéttarfélag hafi verið „ein grófasta aðför að réttindum vinnandi fólks hér á landi á síðari tímum, aðför sem þegar er skráð á spjöld sögunnar.“

Kynningarfundur um væntanlegt hlutafjárútboð Icelandair fór fram í morgun.
Kynningarfundur um væntanlegt hlutafjárútboð Icelandair fór fram í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kynningarfundur Icelandair um væntanleg hlutafjárútboð félagsins fór fram í dag á Hótel Reykjavík Natura en vonast til þess að stærstu lífeyrissjóðir hérlendis komi að hlutafjárútboðinu.

Forsvarsmenn þeirra stéttarfélaga sem eiga fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóða hafa þó sagt að ekki væri gott ef lífeyrissjóðir kæmu að útboðinu í ljósi þess að Icelandair hafi sagt upp öllum flugfreyjum félagsins í júli. Var sú aðgerð meðal annars sögð vera „grimmileg aðför“ og „alger lágkúra.“

Í sameiginlegri yfirlýsingu Icelandair og ASÍ fullyrðir Kjarninn að segi að „við­brögð Icelanda­ir, þegar félagið taldi von­laust um frek­ari árangur í við­ræðum við Flug­freyju­fé­lag Íslands, að segja upp öllum starf­andi flug­freyjum og flug­þjónum þann 17.7.2020 eru hörmuð enda brutu þau í bága við góðar sam­skipta­reglur sem aðilar vinnu­mark­að­ar­ins vilja við­hafa.

Icelandair telur nauð­syn­legt fyrir fram­tíð félags­ins að virða stétt­ar­fé­lög og sjálf­stæðan samn­ings­rétt starfs­fólks síns sem tryggir frið um starf­semi félags­ins á gild­is­tíma kjara­samn­inga og á meðan leitað er lausna í kjara­við­ræð­um. Aðilar munu leggja sig fram um að halda góðu sam­starfi og munu leggja sitt af mörkum til þess að end­ur­vinna og efla traust sín á milli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert