Heilbrigðisstarfsfólk ekki smitast meir en aðrir

Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, segir niðurstöðurnar fagnaðarefni.
Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, segir niðurstöðurnar fagnaðarefni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlutfall smita á meðal heilbrigðisstarfsfólks sem starfar hjá Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er ekki meira en á meðal Íslendinga almennt, samkvæmt niðurstöðum skimana Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE). Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, segir að þetta sýni að heilsugæslan og Landspítalinn starfi „ótrúlega vel“ þegar stofnanirnar þurfa að mæta því álagi sem heimsfaraldur hefur í för með sér. 

„Þetta þýðir að starfsmenn þessara tveggja stofnana hafa séð um þetta lasna fólk sem leitaði til þeirra af alveg ótrúlegri fagmennsku. Þeir sinntu þeim þannig að það hefur hvergi náðst betri árangur á gjörgæslu heldur en með sjúklingana hjá okkur,“ segir Kári í samtali við mbl.is.

„Þrátt fyrir það að sinna þessum sjúklingum afburðavel þá hafa þeir ekki aukið smit í eigin hópi. Mér finnst þetta fagnaðarefni, mér finnst þetta benda til þess að heilsugæslan og Landspítalinn starfi alveg ótrúlega vel þegar þeir þurfa að mæta svona álagi.“

Ívið lægra hlutfall smitaðra var hjá starfsmönnum LSH.
Ívið lægra hlutfall smitaðra var hjá starfsmönnum LSH. Ljósmynd/Ari Þorleifsson

Ívið minna um smit á meðal starfsfólks LSH

Fyrir um tveimur vikum kom upp spurning um það hvort ÍE þyrfti að skima starfsfólk stofnananna tveggja reglulega vegna mikillar nálægðar þess við smitaða einstaklinga. 

„Nú erum við búin að skima starfsmenn heilsugæslunnar og starfsmenn Landspítalans og útkoman er sú að […] starfsmenn þessara stofnana hafi ekki smitast oftar en meðaljóninn í samfélaginu. Það er að segja, það er í kringum 0,9% af starfsmönnum Heilsugæslunnar sem hafa sýkst og það er 0,9% af Íslendingum almennt sem hafa sýkst,“ segir Kári. Ívið minna var um smit hjá starfsfólki Landspítalans en starfsfólki Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is