Ísland væntanlega af rauða listanum

Allt bendir til þess að Ísland fari af rauðum lista …
Allt bendir til þess að Ísland fari af rauðum lista norskra stjórnvalda um helgina. AFP

Lýðheilsustofnun Noregs mælir með því að Ísland verði tekið af rauðum lista en ferðamenn sem koma frá þeim ríkj­um þurfa að sæta tíu daga sótt­kví við kom­una til lands­ins. Ísland hefur verið á rauðum lista stjórnvalda frá því um miðjan ágúst.

Lýðheilsu­stofn­un Nor­egs (Fol­kehel­seinstituttet, FHI) sendi í gærkvöldi frá sér ráðleggingar til stjórnvalda um breytingar á ferðatakmörkunum til og frá landinu. FHI leggur til að Eistland verði rautt, Pólland, Ísland og Liechtenstein verði gul og að breytingar verði gerðar á Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Ef stjórnvöld fallast á tilmæli FHI verður ferðatakmörkunum milli Íslands og Noregs breytt á miðnætti laugardaginn 19. september.

Samkvæmt tilkynningu FHI hefur kórónuveirusmitum fækkað mjög í Póllandi að undanförnu og hlutfallið nú 19,2 smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikurnar. Aftur á móti verði að fylgjast grannt með þróuninni vegna þess hversu margir fara á milli landanna tveggja. 

Samkvæmt FHI er smithlutfallið á Íslandi nú 15,8 og Liechtenstein 7,8. Vegna þess hversu smitum hefur fækkað hratt í sænsku héruðunum Kalmar og Blekinge þá verði ferðatakmörkunum aflétt þangað en í Kalmar er hlutfallið 6,9 og 4,4 í Blekinge.

FHI leggur til að Sjáland og Norður-Jótland verði færð á rauðan lista sem þýðir að öll Danmörk verður rauð. Á Sjálandi er smithlutfallið 41,1 og á Norður-Jótlandi er það 41,2. 

Finnska héraðið Kainuu verður fært af rauðum lista en aftur á móti fer Etelä-Savo á rauða listann en samkvæmt FHI eru ný smit 30,4 þar á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert