Leggja til samnorrænar aðgerðir gegn upplýsingaóreiðu

Norden/Magnus Fröderberg
Auglýsingar um gagnslausar grímur, skýrslur um skálduð mál og ráðleggingar um vafasöm meðferðarúrræði. Á meðan kórónufaraldurinn hefur geisað hafa falsfréttir og upplýsingaóreiða aukist í svo miklum mæli að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur varað við upplýsingafaraldri. Norræna þekkingar- og menningarnefndin leggur til að sett verði sameiginleg stefna um vinnu í þágu fjölmiðla- og upplýsingalæsis. Þetta kemur fram í frétt á vef Norðurlandaráðs.
Norræna þekkingar- og menningarnefndin leggur til að komið verði á laggirnar norrænum starfshópi sem skuli móta stefnu um fræðslu í fjölmiðla- og upplýsingalæsi fyrir alla aldurshópa. Slíkt getur meðal annars falist í kortlagningu á dreifingu upplýsingaóreiðu á Norðurlöndum eða að greina verkefni sem hjálpa til við að vinna gegn upplýsingaóreiðu. Einnig er lagt til að starfshópurinn vinni og móti heildarstefnu fyrir samnorrænar aðgerðir.

Stafvæðing og samfélagsmiðlar hafa leitt til þess að sprenging hefur orðið í notkun og áhrifum af upplýsingaóreiðu frá því á fyrsta áratug þessarar aldar. Oftast er það í tengslum við stærri fréttaviðburði sem villandi upplýsingar komast á kreik þegar margt fólk leitar svara við spurningum sínum. Þetta er kjarninn í þeirri tillögu sem rædd var á rafrænum septemberfundi nefndarinnar sem fram fór á þriðjudag að því er segir á vef Norðurlandaráðs.

Mikilvægt að skilja á milli réttra og rangra frétta

„Það er mikilvægara nú en nokkru sinni að geta skilið á milli réttra og rangra frétta og við þurfum að efla miðlun reynslu á þessu sviði innan Norðurlanda. Það er mikil áskorun að vinna úr öllum þeim upplýsingum sem dynja á okkur alla daga og því leggur nefndin til aðgerðir sem stuðla að aukinni hæfni Norðurlandabúa í fjölmiðla- og upplýsingalæsi. Við þurfum að verða betri í að meta og greina upplýsingaflæðið,“ segir Kjell-Arne Ottosson, formaður nefndarinnar á vef Norðurlandaráðs.

Ein árangursríkasta leiðin til að vinna gegn upplýsingaóreiðu er að efla vitund almennings um hana og auka þjálfun í heimildarýni. Ríkisstjórnirnar á Norðurlöndum hafa unnið að því, í mismiklum mæli, að styðja við fræðslu í fjölmiðla- og upplýsingalæsi og því er tækifæri til að skiptast á reynslu sem styrkt getur svæðið í heild. Margar aðgerðir hafa beinst að fræðslu barna og ungs fólks um heimildarýni en aukin áhersla er á eldra fólk sem er í hópi þeirra viðkvæmustu á samfélagsmiðlum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins er forseti Norðurlandaráðs.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins er forseti Norðurlandaráðs. mbl.is/Sigurður Bogi

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem falsfréttir eru á dagskrá í norrænu samstarfi. Árið 2017 var haldinn norrænn fundur sérfræðinga sem gat af sér skýrsluna „Fighting Fakes – The Nordic Way“. Þá voru falsfréttir í kjölfar kórónufaraldursins ræddar á rafrænum sumarfundi ársins og í formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði er upplýsingaóreiða nefnd sem ógn við traust í samfélaginu og grundvallargildi lýðræðisins.

„Að standa vörð um lýðræðið og verjast upplýsingaóreiðu er veigamikið forgangsmálefni Íslands árið 2020. Okkur langar að sýna fram á hvernig Norðurlönd geta beitt sér í sameiningu gegn falsfréttum. Getum við til dæmis styrkt stöðu vandaðra fjölmiðla og getum við aukið meðvitund meðal almennings,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, ennfremur á vef ráðsins.

mbl.is