Réðust fjórir á ofbeldismann

mbl.is

Fjórir menn réðust á einn í Kópavoginum síðdegis í gær og veittu honum áverka ásamt því að skemma bifreið hans. Sá sem varð fyrir árásinni hafði 40 mínútum áður verið gerandi í líkamsárás og veitt öðrum áverka. Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt var um seinni líkamsárásina klukkan 18:10 og var árásarþoli þeirrar líkamsárásar fluttur á bráðamóttöku Landspítalans til aðhlynningar. Hann var síðan handtekinn og er vistaður í fangageymslum lögreglunnar vegna rannsóknar líkamsárásar sem tilkynt var klukkan 17:30 og var einnig gerð í Kópavogi.

Maðurinn hafði meðal annars hótað og veitt öðrum manni áverka á hendi og bringu en var farinn af vettvangi er lögregla kom. Eins og áður sagði réðust fjórir menn á hann stuttu síðar. 

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í Vesturbænum (hverfi 107) síðdegis í gær en ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna. Bifreiðin var með röng skráningarnúmer og ótryggð og viðurkenndi ökumaður þau brot. Lögreglan klippti röngu skráningarnúmerin af bifreiðinni.

Ökumaðurinn, sem er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna, var stöðvaður af lögreglu í Austurbænum (hverfi 104) skömmu fyrir klukkan 21 í gærkvöldi og annar ökumaður var stöðvaður síðar um kvöldið í næsta hverfi (105) en hann er einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í nótt hafði lögregla afskipti af tveimur ökumönnum í því hverfi sem eru grunaðir um sölu og kaup fíkniefna. Báðir sögðust vera að kaupa fíkniefnin sem fundust í bifreið annars þeirra. Tveir aðrir ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. 

Sautján ára ökumaður var stöðvaður á 113 km hraða á Kringlumýrarbraut í nótt og fer málið til barnaverndar auk þess sem forráðamönnum verður tilkynnt um ökulag unga piltsins.

Í Kópavogi var brotist inn í bílageymslu og þar spenntur upp skápur og verkfærum stolið síðdegis í gær. 

mbl.is