30 á biðlista eftir endurhæfingu vegna eftirkasta

100-120 manns leita á Reykjalund daglega.
100-120 manns leita á Reykjalund daglega. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Um 30 manns sem upplifa eftirköst eftir COVID-19-sýkingu eru á biðlista eftir endurhæfingu hjá Reykjalundi, að sögn forstjóra Reykjalundar. Fólk sem leitar endurhæfingar vegna eftirkasta er flest á vinnualdri. Hann segir að umsóknum fjölgi hægt og rólega.

„Þetta er fólk sem við viljum koma út í atvinnulífið aftur og aðstoða við það. Þetta fólk er með skert starfsþrek og starfsgetu. Við erum að reyna að finna leiðir til að starfsþrek verði sem eðlilegast og fólk geti notið og tekið þátt í lífinu eins vel og mögulegt er,“ segir Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar, í samtali við mbl.is.

Um 40 manns í sóttkví

Þessi endurhæfing er þó ekki stór hluti af starfsemi Reykjalundar en þangað leita 100-120 manns daglega og eru langir biðlistar eftir ýmiss konar þjónustu sem Reykjalundur veitir. Smit sem greindist í gær hjá nema sem starfar á Reykjalundi hefur haft töluverð áhrif á starfsemi Reykjalundar en um 40 manns eru í sóttkví, 20 starfsmenn og 20 skjólstæðingar. 

„Svo þarf að fara vel yfir þetta – hvort ástæða sé til þess að fleiri fari í sóttkví. Það er gert í samvinnu við smitrakningarteymi almannavarna,“ segir Pétur. 

Engin skimun mun fara fram á meðal starfsfólks og skjólstæðinga Reykjalundar sem eru ekki í sóttkví að sögn Péturs. 

Frétt af mbl.is

Læra eitthvað nýtt um veiruna vikulega

Pétur segir að það komi aðeins á óvart hversu margir upplifi eftirköst eftir COVID-19-sýkingu. Starfsfólk Reykjalundar lærir ýmislegt nýtt um veiruna og eftirköstin í hverri viku.

„Þessi stóri hópur fólks sem virðist enn vera með eftirköst, mörgum vikum eða mánuðum eftir sýkingu kannski kemur aðeins á óvart. Ég held að það sé ekki búið að ná alveg utan um það hversu stórt hlutfall það er enn þá. En þetta virðist vera töluverður fjöldi sem lýsir einkennum og er ekki búinn að ná sér. Tíminn verður eiginlega að leiða í ljós hversu stórt hlutfall þetta er.“

Er heilbrigðiskerfið að ná nægilega vel utan um þennan hóp?

„Við erum að greina þetta og kortleggja þetta. Ég held að það séu allir af vilja gerðir við að leggja sitt af mörkum, þannig að ég held að við séum í ágætisfarvegi með það miðað við þá þekkingu sem við höfum í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert