Áætlað tap og kostnaðarauki í Mosó 1,4 milljarðar

Mosfellsbær í flugsýn.
Mosfellsbær í flugsýn. mbl.is/Sigurður Bogi

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar beinir því til ríkisstjórnarinnar að bregðast við tekju- og kostnaðarauka sveitarfélaganna með almennum aðgerðum til viðbótar þeim sértæku aðgerðum sem hafa litið dagsins ljós í tengslum við Covid-19 faraldurinn.

Fram kemur í bókun að áætlað tekjutap og kostnaðarauki fyrir Mosfellsbæ vegna faraldursins sé um 1,4 milljarðar króna á árinu 2020. Samkvæmt samantekt sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er áætlað að samanlögð rekstarniðurstaða allra sveitarfélaganna verði verri sem nemur 26,6 milljörðum króna á árinu 2020.

„Verði efnahagslegum áhrifum af faraldrinum velt yfir á fjárhag sveitarfélaga sem eingöngu verði mætt með stóraukinni lántöku, er ljóst að það hefur langvarandi áhrif á alla þjónustu við íbúa og nauðsynlegar framkvæmdir. Auknar skuldir munu óhjákvæmilega hafa í för með sér niðurskurð og skerta getu sveitarfélaga til að sinna nærþjónustu við íbúa sveitarfélagsins,“ segir í bókuninni.

„Bjarnargreiðabókun“

Í bókun bæjarfulltrúa M-lista segir: „Það er algengt eftir slælegan rekstur og áralanga sóun í ýmis gæluverkefni að bíða eftir þannig árferði að hægt verði að dylja fjárhagslegan sóðaskap, safna honum saman og koma honum svo á herðar annarra þegar færi gefst. Þessi bjarnargreiðabókun til handa ríkisstjórninni er ekki trúverðug.“

Í bókun bæjarfulltrúa D- og V-lista kemur fram að bókun fulltrúa M-lista sé full af ósannindum og dylgjum. Hún sé ekki svaraverð og dæmi sig sjálf. „Mosfellsbær er vel rekið sveitarfélag og þar hefur verið sýnd ábyrgð í rekstri hér eftir sem hingað til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert