Bolli flytji heim og endurnýi kynnin af borginni

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir fulla ástæðu fyrir Bolla Kristinsson kaupmann að flytja heim frá Spáni og endurnýja kynni sín af borginni.

Þessu greinir borgarstjórinn frá á Facebook-síðu sinni þar sem hann svarar opnuauglýsingu Bolla í Morgunblaðinu í morgun. Í henni gagnrýndi Bolli Dag harðlega og sagði Laugaveginn vera orðinn að draugagötu vegna ákvarðana borgarinnar í skipulagsmálum.

„Eftir áratuga basl hefur miðborgin snúið vörn í sókn síðustu árin. Raunar var eina verslunarhúsnæðið sem stóð autt í lengri tíma á uppgang[s]tímunum undanfarinna ára stórhýsi Bolla sjálfs við ofanverðan Laugaveg. Það var autt í sex ár þar til hann leigði það ágætri ferðamannaverslun,“ segir Dagur en Bolli greindi frá því í auglýsingunni að yfir 30 verslunarpláss standi tóm við Laugaveginn.

„Á sama tíma blómstraði ekki aðeins Laugavegurinn heldur gekk Hverfisgatan í endurnýjun lífdaga, eins og allt svæði í kringum Hlemm og Hlemmur sjálfur, Hafnartorg varð til, blómstandi Kvosin breytti um svip og fjöldi frábærra veitingastaða margfaldaðist. Verslun og viðskipti breiddust alla leið út á Granda með tilheyrandi mannlífi,“ bætir Dagur við.

Hann segir mikilvægt að missa ekki móðinn vegna Covid-19. Í heiminum eigi ekki síst verslunarmiðstöðvar undir högg að sækja vegna þess og aukinnar netverslunar. Fallegar og fjölbreyttar miðborgir með góðri blöndu af verslun, menningu og veitingastöðum dragi að sér fólk og fyrirtæki.

Dagur segir breytingar fram undan. Fasteignaeigendur sem hafi lifað gósentíð geti búist við að leigan þurfi að lækka. Ekkert svæði á höfuðborgarsvæðinu sé eftirsóttara en miðborg Reykjavíkur.

„Þótt það sé auðvelt að tengja tilfinningarlega við þá hugsun að allt hafi verið best í gamla daga þá er það ekki endilega rétt. Sérstaklega ekki í Reykjavík,“ segir Dagur og biður Bolla vel að lifa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert