Efling gagnrýnir ASÍ

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Eflingar lýsir andstöðu sinni við þátttöku Alþýðusambands Íslands í yfirlýsingu sem undirrituð var ásamt Icelandair og Samtökum atvinnulífsins fyrr í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu, sem gefin var út fyrir stundu.

Í yfirlýsingu frá ASÍ, Icelandair og SA má segja að grafin sé stríðsöxin frá kjaradeilu flugfreyja og Icelandair í sumar. Þegar ekkert gekk né rak í þeim viðræðum sagði Icelandair öllum flugfreyjum félagsins upp og gaf það út að samið yrði við annað félag en Flugfreyjufélag Íslands, aðildarfélag ASÍ, um störf flugfreyja. Stuttu síðar náðist samkomulag milli Icelandair og Flugfreyjufélagsins og voru flugfreyjur endurráðnar.

Í yfirlýsingunni nú sammælast aðilar um að aðgerðir Icelandair hafi ekki verið í samræmi við þær góðu samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa og Icelandair telji nauðsynlegt fyrir framtíð félagsins að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks.

Einnig segir í yfirlýsingunni að aðilar séu sammála um að ljúka öllum deilum sín á milli, en áður hafði ASÍ sagst munu stefna Icelandair fyrir félagsdómi vegna aðgerðanna sem það taldi ólöglegar. Lára V. Júlíusdóttir, sagði í samtali við mbl.is í júlí að hún teldi uppsagnir Icelandair ekki ólöglegar en fordæmalausar.

Í tilkynningu Eflingar segir að með yfirlýsingunni hafi ASÍ tekið þátt í hvítþvotti brota Icelandair og Samtaka atvinnulífsins á vinnumarkaðslöggjöf með því að kalla þau „brot á samskiptareglum“. Bendir Efling á að umrædd yfirlýsing veiti enga lagalega vernd eða tryggingu gegn því að önnur fyrirtæki muni síðar beita sömu aðförum.

„Alþýðusamband Íslands átti að draga Icelandair og Samtök atvinnulífsins til fullrar ábyrgðar fyrir Félagsdómi vegna brota þeirra líkt og áður var samþykkt í miðstjórn ASÍ. Þannig hefði verið staðinn sómasamlegur vörður um réttindi launafólks.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert