Fara fram á aukafund vegna ummæla Dóru Bjartar

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi og formaður mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar, …
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi og formaður mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar, lét ummælin falla á borgarstjórnarfundi 15. september. mbl.is/Hari

„Í ljósi þeirra alvarlegu atburða sem upp komu á síðasta borgarstjórnarfundi 15. september sl. og varða ummæli Dóru Bjartar Guðjónsdóttur borgarfulltrúa og formanns mannréttinda- og lýðræðisráðs í garð oddvita Sjálfstæðisflokksins, Eyþórs Laxdal Arnalds, förum við fram á aukafund í forsætisnefnd eigi síðar en í upphafi næstu viku.“

Þetta kemur fram í skeyti sem Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, og Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, sendu Pawel Bartozek, forseta borgarstjórnar á sjöunda tímanum í kvöld.

Hafi fengið gjöf frá mútufélagi

Dóra Björt sagði meðal annars að Eyþór „virðist hafa fengið fleiri hundruð millj­óna að gjöf frá Sam­herja í gegn­um fyr­ir­tæki sem hef­ur verið notað sem mútu­fé­lag“. Sagðist hún ít­rekað hafa spurt um ástæður þess án þess að fá svör.

Hún sagði líka að komið hafi í ljós að Sam­herji standi að baki upp­bygg­ingu í miðbæn­um á Sel­fossi, sem Eyþór hafi um ára­bil verið dygg­ur talsmaður fyr­ir. „Hér gæti verið kom­in ein ástæða þess að Sam­herji gaf Eyþóri Arn­alds borg­ar­full­trúa svo drjúga gjöf sem stór hluti í Morg­un­blaðinu er,“ sagði hún.

Bætti hún við að ekki séu all­ir á því að skyn­sam­legt sé að af­henda hags­munaaðilum skipu­lags­valdið, hvorki á Sel­fossi né í Örfiris­ey þar sem Eyþór virðist hafa hags­muni af upp­bygg­ingu.

Samsæringakenning Dóru til minnkunar

Eyþór svaraði Dóru og sagði hana vera „dylgja algjörlega út í loftið“ og sagði hana verða sjálfri sér til minnkunar. Þannig væri auðvelt að nálgast upplýsingar um að skipulag miðbæjar Selfoss hefði verið samþykkt í íbúakosningu fjórum árum eftir að hann hætti í borgarstjórn og að bygg­ing­ar­leyf­in fyr­ir miðbæ­inn hafi verið gef­in af vinstri-meiri­hlut­an­um. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hafi ekki komið þar nærri.

Hann sagði þetta sam­særis­kenn­ingu sem stæðist ekki og betra væri að eyða tíma borg­ar­full­trúa í eitt­hvað annað en „þessa þrá­hyggju“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert