Hertar aðgerðir á vínveitingastöðum

Þórólfur Guðnason.
Þórólfur Guðnason. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir boðar staðbundnar hertar aðgerðir til að sporna við kórónuveirusmitum á vínveitingastöðum. Þórólfur greindi frá þessu á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann greindi ekki frá til hvaða aðgerða yrði gripið en hann hyggst koma með tillögur til ráðherra í dag eða á morgun. 

„Ég held að þessi aukning á sýkingum hér innanlands sl. tvo til þrjá daga, eða tvo daga sérstaklega, kalli á staðbundnar og markvissar aðgerðir hér á höfuðborgarsvæðinu fremur en almennar aðgerðir á landinu öllu. Og þessar staðbundnu aðgerðir í mínum huga felast einkum í aðgerðum sem lúta að og snerta vínveitingastaði til að koma í veg fyrir dreifingu. Því eins og við höfum talað um áður, þá eru náttúrlega þessir staðir líklegir, það er að segja fólkið sem er á þessum stöðum öllu heldur [...] líklegt til að smitast og smita aðra,“ sagði Þórólfur. 

„Ég er ekki alveg tilbúinn til að segja í hverju það felst, hvaða tillögur ég mun koma með til ráðherra um þessa staði. En ég mun koma með tillögu til ráðherra í dag eða á morgun um aðgerðir,“ sagði hann ennfremur.

Hann bætti við að það væri mikilvægt að skerpa vel á þeim sóttvarnaaðgerðum sem eru í gangi og eiga að vera við lýði á fjölförnum stöðum, eins og vinnustöðum og skólum. Hann muni koma með tillögur um það í minnisblaðinu. 

Það þurfi einnig að skerpa og viðhalda reglum er varða vernd viðkvæmra einstaklinga, s.s. á hjúkrunarheimilum og sambýlum. 

„Ég er ekki að boða tillögur um almennt hertar aðgerðir af hálfu opinberra aðila á þessari stundu heldur markvissari aðgerðir um þau atriði sem lúta að uppruna þessarar sýkingar sem við erum að fást við núna,“ sagði Þórólfur sem hnykkti enn og aftur á því að fólk gæti vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum og að fylgja eins metra reglunni m.a. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert