Kunnum að tala um einmanaleikann

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umræðan um einmanaleikann er miklu nýrri en einmanaleikinn. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á málþingi um einmanaleika og félagslega einangrun eldra fólks og hvað sé til ráða.

„Fólk hefur verið einmana alla tíð en nú er það sem betur fer orðið þannig að við kunnum að tala um það,“ sagði hún og nefndi mikilvægi þess að hjálpast að í gegnum þessa líðan. 

Hún sagði flest fólk lifa góðu lífi en einmanaleiki sé raunverulegur vandi fyrir suma og hann valdi kvíða og vondri tilfinningu á hverjum einasta degi. Mikilvægt sé að vera virkur til að vinna gegn einmanaleika og depurð.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir. Skjáskot/HÍ

Einmanaleiki enginn faraldur

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sálfræðingur og sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis, var ein þeirra sem flutti erindi.

Hún sagði fólk hafa þörf fyrir að vera í samskiptum og félagsskap annarra en bætti við að ekki sé endilega það sama að vera einn og að vera einmana.

„Ekkert spáir betur fyrir um hamingju en góð, félagsleg tengsl,“ sagði hún og tók fram að engar vísbendingar séu um að einmanaleiki sé að verða að neinum faraldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert