Öll tengd smiti sem kom hingað fyrir 19. ágúst

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Smit sem hafa komið upp hérlendis eiga öll rætur að rekja til smits sem kom hingað til lands fyrir 19. ágúst, þ.e.a.s. áður en tvöföld skimun með sóttkví á milli var tekin upp á landamærunum, að sögn Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE).

Hann segir raðgreiningu benda til þess að sjö af þeim nítján sem greindust smitaðir í gær hafi komið inn á sama stað. Þá segir Kári útlit fyrir að næsta bylgja sé að rísa og hún sé mun meira ógnvekjandi en önnur bylgja. 

Íslensk erfðagreining skimaði fyrir veirunni á meðal nemenda og starfsfólks Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Einungis einn reyndist smitaður í þeirri skimun en 450 mættu í skimun. 

„Í gær greindust nítján smit og lítil tenging á milli þeirra. Það gerir það að verkum að við erum með smit úti um allt samfélag og þurfum að búa okkur undir þann möguleika að hér verði býsna stór bylgja á næstu tveimur vikum,“ segir Kári í samtali við mbl.is. 

Sjö með sama mynstur

ÍE hefur nú þegar raðgreint tíu af sýnunum úr þeim 19 sem greindust smitaðir í gær. 

„Þar af voru þrjú með þetta stökkbreytingarmynstur sem við höfum séð á undanförnum vikum og sjö sem voru með nýtt mynstur, mynstur sem við höfum að vísu séð í tveimur frönskum ferðamönnum sem hingað komu. Sagan segir að [þessir sjö] hafi komið inn á sama stað einhvers staðar og tengist í gegn um það. En maður gerir sér í hugarlund að þessir sjö hafi farið inn á einhverja aðra staði líka áður en þeir greindust. Ég er dálítið smeykur við að þetta sé komið víða,“ segir Kári. 

Útlit fyrir að þriðja bylgjan sé á leiðinni

Kári segir erfitt að spá fyrir um það hvort smitum muni fjölga mikið á næstunni eins og gerðist í upphafi fyrstu bylgju þegar 14-23 smit greindust dag­lega í heila viku áður en þeim fjölgaði í 53 smit þann 17. mars.

„Í vor voru sýktir einstaklingar að streyma inn í landið frá Austurríki, Ítalíu, Bretlandi og Bandaríkjunum en nú erum við að takast á við smit sem eru að breiðast út í þessu samfélagi. Þau smit sem við höfum séð upp á síðkastið eiga öll rætur sínar í smiti sem byrjaði fyrir 19. ágúst, áður en við fórum að nota tvöfalda skimun og sóttkví,“ segir Kári sem er ekki í neinum vafa um að slík aðferð á landamærunum virki. 

Þó séu heilbrigðisyfirvöld „háð því að fólk haldi þá skilmála sem eru í kringum sóttkvína og má vera að það sem er að gerast núna gefi okkur tilefni til að fylgjast betur með,“ segir Kári. 

Er tilefni til að tala um þriðju bylgju? 

„Mér finnst þetta líta út eins og það sé að koma þriðja bylgja. Sem stendur finnst mér hún mun meira ógnvekjandi en bylgja númer tvö.“

mbl.is