Reiknar með viðvörunum strax í fyrramálið

Það verður ansi hvasst á sunnudaginn ef núverandi veðurspár ganga …
Það verður ansi hvasst á sunnudaginn ef núverandi veðurspár ganga eftir. Kort/Veðurstofa Íslands

„Eins og spáin er núna þá er von á djúpri lægð á sunnudaginn með talsverðu hvassviðri og mikilli rigningu um mest allt land,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann reiknar með því að viðvaranir vegna veðurs verði gefnar út strax í fyrramálið ef spáin helst svipuð. Hann segir að svona veður gangi yfirleitt yfir á hluta úr degi.

„Þetta er lægð sem á að eiginlega æða yfir landið en það er erfitt að segja núna hversu lengi hún mun standa,“ bætir hann við.

Fylgjast þurfi vel með

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur gerði lægðina að umtalsefni í færslu á Facebook fyrr í kvöld. Hann segir að fylgjast þurfi vel með og að ef spár gangi eftir kalli það á „ýmsan viðbúnað suðvestanlands.“

Hann segir að grunninn að lægðabylgjunni megi rekja til 2. stigs fellibylsins Sallýar sem hefur gert fólki lífið leitt í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna síðan hann gekk á land við suðurströnd Bandaríkjanna.

mbl.is