Sex nemendur alls smitaðir í HR

Fjórir nemendur Háskólans í Reykjavík greindust með kórónuveiruna í gær og eru smitaðir nemendur innan HR því orðnir sex. Þetta kemur fram í tilkynningu til nemenda skólans sem send var út í morgun.

„Samkvæmt okkar upplýsingum er enginn nemendanna alvarlega veikur,“ segir í tilkynningunni sem og að ekki virðist vera um útbreitt smit innan skólans að ræða en fimm smitanna eru innan sama nemendahóps. 

Sá hópur og kennarar hans stunda nám og vinnu heiman að frá sér og koma ekki í HR meðan smitrakningarteymi vinnur að rakningu og ákvörðunum um hverjir fari í sóttkví. Öll rými sem viðkomandi einstaklingar voru í hafa verið sótthreinsuð. Nemandinn sem greindist og er ótengdur þessum hópi hefur ekki komið í HR í nokkurn tíma og því hefur enginn í HR þurft að fara í sóttkví vegna hans.

Íslensk erfðagreining hefur boðið nemendum og starfsfólki HR og HÍ í skimun. Þegar blaðamaður ræddi við forstjóra ÍE höfðu 450 mætt í slíka skimun en aðeins einn greinst smitaður. 

Í stóru og virku háskólasamfélagi má búast við að upp komi smit. Þess vegna hefur frá upphafi kennslu í haust verið lögð áhersla á sóttvarnir í HR, með skipulagi starfs, stýringu á nýtingu húsnæðis og miklum sótthreinsunum. Allar líkur eru á að með samstilltum aðgerðum og skimun verði unnt að stöðva útbreiðslu smits innan háskólans,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert