Töldu að lengra yrði ekki komist

Lögreglumenn kjósa um nýjan kjarasamning á næstu dögum.
Lögreglumenn kjósa um nýjan kjarasamning á næstu dögum. Eggert Jóhannesson

„Við töldum á þessum fundi að lengra yrði ekki komist, og að það yrði að setja þetta í kosningu félagsmanna,” segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, í samtali við mbl.is.

Í gær skrifaði samninganefnd LL undir nýjan kjarasamning við samninganefnd ríkisins. Fyrri kjarasamningur rann út 1. apríl 2019.

„Þetta er búið að taka ansi langan tíma, þó ég sé ekki viss um að þetta sé óvenjulegt miðað við aðra samninga,” segir Snorri. Hann segir að kjaraviðræður við lögreglumenn hafi oft dregist á langinn, og að forsvarsmenn LL hafi ítrekað gert athugasemdir við ferlið.

„Lögreglumenn sitja þarna lengi sem embættismenn án verkfallsréttar og bíða eftir að gert séu samningar við alla í kringum okkur. Og loksins þegar kemur að okkur verður allt að gerast á einhverjum undrahraða,” segir Snorri.

Samningurinn er lagður fram samhliða lífskjarasamning, sem og sameiginlegum samning um styttingu vinnuviku. Kjarasamningurinn inniheldur einnig launaþróunartryggingu og nýjan stofnanasamning.

Snorri segir mikilvægt að félagsmenn skoði og greiði atkvæði um kjarasamninginn á sínum eigin forsendum, en LL vinnur nú að kynningarefni um samninginn, en stefnt er að því að niðurstaða atkvæðagreiðslu muni liggja fyrir við lok næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert