Fylgst með opnum og lokuðum stöðum

Lögregluþjónar sinna eftirliti í miðbæ Reykjavíkur.
Lögregluþjónar sinna eftirliti í miðbæ Reykjavíkur. Ljósmynd/Lögreglan

Veitingahúsaeftirlit verður í auknum forgangi um helgina að sögn Ásgeirs Ásgeirssonar, yfirlögregluþjóns. Verkefnið er tvíþætt. Annars vegar þarf að fylgja eftir að þær lokanir, sem boðaðar voru í morgun vegna þeirra Covid-19 smita sem hafa greinst á undanförnum dögum, verði virtar.

Hins vegar þarf að fylgjast með því að reglur um nálægðarmörk og sóttvarnir séu virtar á þeim stöðum sem ennþá eru opnir, veitingastöðum og kaffihúsum.

Verkefnið er umtalsvert en lokanirnar ná til kráa og skemmti­staða í Reykja­vík, Mos­fells­bæ, Hafnar­f­irði, Garðabæ, Kópa­vogi, Kjós­ar­hreppi og á Seltjarn­ar­nesi.

Allar stöðvar taka þátt

„Við setjum mikinn þunga í það útfrá þessum hagsmunum sem við erum að reyna að vernda. Við erum að reyna að stoppa útbreiðslu þessa stóra hópsmits sem er komið af stað,“ útskýrir Ásgeir en allar lögreglustöðvar á höfuðborgarsvæðinu taka þátt í eftirlitinu.

„Ég held að þetta eigi að vera um 50 eða 60 staðir sem eiga að vera lokaðir um helgina af 200. Í versta falli ef það er einhver vafi þá skoðum við leyfið því leyfið á að hanga á áberandi stað við inngang,“ segir Ásgeir en hann býst þó ekki við að kalla þurfi út aukamannskap vegna þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina