Landsréttur tók játningu ekki gilda

Landsréttur ómerkti dóm Héraðsdóms Suðurlands og gerði dóminum að taka …
Landsréttur ómerkti dóm Héraðsdóms Suðurlands og gerði dóminum að taka málið aftur fyrir efnislega. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur ómerkti í dag dóm yfir manni sem Héraðsdómur Suðurlands hafði dæmt í fjögurra ára og þriggja mánaða fangelsi fyrir fjölmörg brot. Játning mannsins var ekki talin skýlaus í skilningi laga um meðferð sakamála og því ekki talin skilyrði til að ljúka málinu á grundvelli játningarinnar.

Í héraðsdómi var maðurinn sakfelldur fyrir umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot og vopnalagabrot sem samkvæmt ákæru voru framin 22. desember 2018. Fram kom í dóminum að ákærði hafi játað skýlaust fyrir dómi háttsemi samkvæmt ákæru og ekki hafi verið talin ástæða til að draga í efa að játningin væri sannleikanum samkvæm.

Framburður ekki í samræmi við ákæru

Maðurinn áfrýjaði dóminum og krafðist frávísunar en til vara að hann yrði sýknaður eða refsing hans milduð. Frávísunarkrafan var byggð á því að hann hafi fyrir dómi staðfest frumburð sinn hjá lögreglu. Þar sem sá framburður hafi ekki verið í samræmi við ákæru taldi hann að sú ranga ályktun hafi verið dregin fyrir dómi að hann hafi játað að hafa gerst sekur um háttsemi sem honum var þar gefin að sök.

Landsréttur sagði slíkan vafa vera á því að ákærði hafi játað skýlaust öll ákæruatriði á hendur sér fyrir héraðsdómi að óhjákvæmilegt væri annað ómerkja fyrri dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið aftur til meðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert