Þjófnuðum fjölgaði töluvert

Tilkynnt var um 372 þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu í ágúst.
Tilkynnt var um 372 þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu í ágúst. mbl.is/Árni Sæberg

Tilkynnt var um 372 þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu í ágúst og fjölgaði þeim töluvert frá því í mánuðinum á undan.

Þetta kemur fram í afbrotatölfræði lögreglunnar fyrir ágústmánuð.

Í júlí voru þjófnaðirnir 346 talsins og í júní 293. Það sem af er ári hafa fæstir þjófnaðir verið í mars, eða 261 talsins.

Það sem af er ári hafa borist sex prósent færri tilkynningar um þjófnað en bárust að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár.

Til þjófnaða teljast meðal annars innbrot og voru þau 98 talsins í ágúst, sem var álíka mikið og í júlí. Þau voru aftur á móti 74 í maí og „aðeins“ 44 í maí.

Það sem af er ári hafa borist um 4 prósent færri tilkynningar um innbrot en bárust á sama tíma síðustu þrjú ár á undan.

Tilkynningum um eignaspjöll fjölgaði

Skráð voru 773 hegningarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í ágúst og fækkaði þessum brotum á milli mánaða.

Í ágúst voru skráðar 129 tilkynningar um eignaspjöll og fjölgar þessum tilkynningum á milli mánaða. Tilkynningum um nytjastuld ökutækja fjölgaði einnig á milli mánaða og fór úr 18 tilkynningum í júlí í 29 tilkynningar í ágúst.

Skráðum ofbeldisbrotum fækkaði töluvert á milli mánaða og hafa ekki borist jafnfáar tilkynningar síðan í desember 2019. Tilvik þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi eða hótað um ofbeldi fækkaði á milli mánaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert