Býst við fleiri gestum í farsóttahúsið

Þrjátíu dvelja nú í Farsóttarhúsinu.
Þrjátíu dvelja nú í Farsóttarhúsinu. Ljósmynd af hótelinu af Booking.com

Þrjátíu manns dvelja nú í farsóttahúsi Rauða krossins við Rauðarárstíg og eru 17 af þeim smitaðir af kórónuveirunni, að sögn Gylfa Þórs Þorsteinssonar, umsjónarmanns farsóttahússins. Meðal annarra sem dvelja í húsinu eru hælisleitendur í sóttkví. 

Ágætlega búin undir þriðju bylgjuna

Hafa 379 manns dvalið í húsinu síðan það var opnað á nýjan leik hinn 15. júlí en eftir fyrstu bylgju faraldursins höfðu 50 manns dvalið í húsinu.

„Það varð ákveðin aukning í gær og í dag en að meðaltali hafa þrjátíu manns verið í húsi síðan við opnuðum,“ segir Gylfi í samtali við mbl. Hann segir starfsmenn hafa verið ágætlega búna undir þriðju bylgjuna þar sem ferðamönnum og hælisleitendum fari fækkandi.

Nóg er af plássi fyrir fleiri sem kunna að þurfa að dvelja í farsóttahúsinu á næstu dögum:

„Við höfum pláss fyrir það sem þarf. Í aðalhúsinu okkar á Hótel Lind getum við verið með um 70 til 80 manns í húsi,“ segir Gylfi. Hann býst við fleiri dvalargestum í húsinu á næstunni, sé litið til fjölda smita sem greindust í gær.

mbl.is