Lægð í myndun sem öllu ræður í veðrinu

Vindaspáin á landinu kl. 15 í dag.
Vindaspáin á landinu kl. 15 í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Útlit er fyrir allhvassa eða hvassa (13-20 m/s) suðvestanátt með skúrum í dag, en þurru veðri á austanverðu landinu. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast á Austurlandi.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

„Þegar þetta er skrifað er lægð í myndun við Nýfundnaland og það er hún sem ræður öllu í veðrinu hjá okkur á morgun, því gert er ráð fyrir að þessi lægð keyri yfir landið. Þá má búast við stífri sunnanátt með talsverðri rigningu. Þegar lægðin er komin norðaustur yfir land annað kvöld, þá dregur hún kaldari norðanátt yfir Vestfirði og Norðurland og úrkoman þar verður slyddukennd á láglendi, en snjókoma til fjalla. Það hefur verið óvenjumikil óvissa varðandi dýpt og braut sunnudagslægðarinnar, svo þeir sem eiga mikið undir veðri þurfa áfram að fylgjast með uppfærðum spám, en það er nýjasta spáin sem yfirleitt er sú sem líklegust er til að ganga eftir.

Fyrri hluta næstu viku er síðan gert ráð fyrir norðlægri eða breytilegri átt með úrkomu og fremur köldu veðri miðað við árstíma,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert