Nýtt spálíkan eftir viku til tíu daga

Thor Asperund, prófessor í líftölfræði við HÍ.
Thor Asperund, prófessor í líftölfræði við HÍ. Ljósmynd/Lögreglan

Nýtt spálíkan Háskóla Íslands er væntanlegt eftir rétt rúma viku að sögn Thors Aspelund, prófessors í líftölfræði. Hann tekur undir með Kára Stefánssyni og Þórólfi Guðnasyni um að þriðja bylgjan sé hafin. Nokkra daga muni taka að fá nógu skýra mynd af þróun faraldursins og þá gefist kostur á því að segja fyrir um framhald þessarar bylgju.

„Þetta er auðvitað svolítið ógnvekjandi og við bjuggumst nú ekki alveg við þessu,“ segir Thor í samtali við mbl.is Hann segir jafnframt að ekki sé ástæða til þess að óttast mjög. „Við bíðum bara í nokkra daga eins og við gerðum í júlí til þess að fá skýrari mynd af þessari þróun og þá er hægt að spá um framhaldið.

Við verðum að átta okkur á því að ef það koma margir svona dagar í röð munum við að öllum líkindum sjá svipaða bylgju og þá fyrstu.“ Thor segir einnig að Íslendingar séu betur undirbúnir til þess að takast á við veiruna en í fyrstu bylgju og það muni vonandi reynast okkur vel.

Fylgjast með þróun erlendis

Thor segir að verið sé að fylgjast með þróun faraldursins erlendis og rýna í erlend gögn.

„Staðan hefur farið versnandi í kringum okkur og við erum því að nýta gögn að utan til þess að meta hvernig þróun faraldursins verði hér. Í Danmörku blossaði til að mynda upp bylgja sem af sumum er sögð verri en fyrsta bylgjan.“

Höfðu áhyggjur af skólahaldi

Thor segir að fram hafi komið í haust að mögulega gæti smitum fjölgað þegar skólahald færi aftur af stað.

„Þetta er að miklu leyti ungt fólk sem er að smitast en eins og við sögðum fyrr í haust gerðum við ráð fyrir því að veiran tæki kipp þegar skólarnir færu aftur af stað.“

Hann segist treysta sóttvarnayfirvöldum til þess að taka ákvarðanir um hvað skuli gera nú þegar smitum fjölgar jafnhratt og raun ber vitni. Í gær greindust 75 ný tilfelli kórónuveirunnar hér á landi og hafa ekki greinst fleiri smit á einum degi síðan 1. apríl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert